Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo, er kominn í hóp um þrjátíu stærstu hluthafa Arion banka eftir að hafa keypt drjúgan skerf, eða sem nemur fyrir jafnvirði um milljarð króna, af þeim tæplega tíu prósenta eignarhlut sem vogunarsjóðurinn Taconic Capital seldi í bankanum undir lok síðasta mánaðar.

Eignarhaldsfélög og ýmsir fjársterkir einstaklingar keyptu meirihluta bréfanna af Taconic, einkum í gegnum framvirka samninga hjá bönkunum, samkvæmt uppfærðum lista yfir alla hluthafa Arion í gær, sem Markaðurinn hefur séð. Íslenskir lífeyrissjóðir, meðal annars LSR og Lífeyrissjóður verzlunarmanna, og verðbréfasjóðir bættu hins vegar við sig samanlagt um þriggja prósenta hlut.

Reynir heldur á um 0,5 prósenta hlut í gegnum félagið InfoCapit­al, samtals 8,33 milljónir hluta að nafnverði, sem þýðir að hann er á meðal stærri einkafjárfesta í bankanum.

Reynir, sem situr í stjórn fjártæknifélagsins SaltPay, áður Borgun, seldi um helminginn af 70 prósenta hlut sínum í Creditinfo í liðnum mánuði til bandaríska framtakssjóðsins Levine Leitch­man Capital. Kaupverðið í þeim viðskiptum, eins og Markaðurinn hefur áður upplýst um, miðaðist við að fyrirtækið væri í heild sinni metið á um 20 til 30 milljarða og má því ætla að virði þess hlutar sem Reynir seldi sé allt að 10 milljarðar króna.

Taconic Capital, sem var um langt skeið stærsti hluthafi Arion banka með nærri fjórðungshlut, gekk frá sölu á síðustu bréfum sínum í bankanum – samtals 9,56 prósenta hlut – þann 29. mars síðastliðinn fyrir samtals tæplega 20 milljarða króna, en gengið í þeim viðskiptum var 120 krónur á hlut. Hlutabréfaverðið hefur hækkað nokkuð síðan þá og stóð í 126 krónum við lokun markaða í gær.


Mikið í framvirkum samningum


Eignarhlutur sem bankarnir eru skráðir fyrir í Arion banka – Íslandsbanki, Kvika og Landsbankinn – hefur nærri tvöfaldast eftir söluna hjá Taconic og nemur nú samanlagt rétt rúmlega tíu prósentum, eða um 22 milljörðum króna að markaðsvirði. Langsamlega stærstur hluti þeirra bréfa er vegna framvirkra samninga sem bankarnir hafa gert við viðskiptavini sína auk þess að skiptast á eignarhlutum og veltubók.

Hlutabréfaverð Arion hefur hækkað um 33 prósent frá áramótum.

Sjóðir í stýringu Akta, sem áttu tæplega 0,8 prósenta hlut í Arion undir lok síðasta mánaðar, tvöfölduðu eignarhlut sinn í bankanum og eiga núna rúmlega 1,6 prósenta hlut. Þá keypti fagfjárfestasjóðurinn Algildi fyrir jafnvirði um 500 milljóna króna en sjóðir í stýringu rekstrarfélaga, eins og Íslandssjóðum, Landsbréfum og Kviku eignastýringu, bættu hins vegar minna við sig.

Tveir nýir erlendir fjárfestar bættust við hluthafahóp Arion banka í liðnum mánuði, samkvæmt hluthafalistanum sem Markaðurinn hefur séð. Það eru sjóðastýringarfélögin Quaero Capital, sem er með höfuðstöðvar í Sviss og með eignir í stýringu að fjárhæð um 2,6 milljörðum evra, og FundPartner Solutions en þau eiga hvort um sig liðlega 2 milljónir hluta að nafnverði í Arion banka, eða sem jafngildir um 250 milljónum króna að markaðsvirði.


Erlendir fjárfestar horfnir


Eignarhlutur erlendra fjárfesta í Arion banka hefur hins vegar hríðfallið á undanförnum mánuðum og misserum, einkum vegna sölu Taconic og þar áður Sculptor Capital, en í ársbyrjun 2020 nam samanlagður hlutur þeirra í bankanum um 50 prósentum. Í dag eiga erlendir fjárfestar hins vegar vel undir 5 prósentum. Á sama tíma hefur meðal annars eignarhlutur íslenskra lífeyrissjóða tvöfaldast yfir sama tímabil en samanlagður hlutur þeirra – Gildi, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og LSR eru þar langsamlega stærstir – stendur nú í um 45 prósentum.

Fjárfestingafélagið Stoðir er eftir sem áður með tæplega fimm prósenta hlut í Arion banka og þá á félagið Hvalur, sem er stýrt af Kristjáni Loftssyni, rúmlega 2,1 prósents hlut. Til viðbótar við Reyni eru aðrir stórir einkafjárfestar í hluthafahópi Arion – allir samt með nokkuð minna en eins prósents hlut – meðal annars félögin Mótás, í eigu Bergþórs Jónssonar og Fritz Hendriks Berndsen, Bóksal, í eigu Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur, Eignarhaldsfélagið VGJ og Þarabakki, sem er í eigu Daníels Helgasonar.

Hlutabréfaverð Arion hefur hækkað um liðlega 33 prósent frá áramótum og markaðsvirði bankans er nú um 218 milljarðar króna.