Flugbætur.is stefnir Air Iceland Connect fyrir hönd farþega, vegna nýrra ódagsettra skilmála sem takmarka möguleika farþega á að krefjast bóta. Að mati Flugbóta brýtur þessi skilmálabreyting í bága við Evrópureglugerðina sem kveður á um að ekki megi takmarka rétt farþega

Flugi farþegans sem um ræðir var aflýst á leið frá Ísafirði til Reykjavíkur síðastliðinn september. Farþeginn hafði samband við Flugbætur.is og bað félagið um að innheimta bótakröfu sína, en farþeginn á rétt á 250 evrum eða tæplega 35 þúsund krónum.

Ómar R. Valdimarsson lögmaður segir krafa farþegans hafa uppfyllt alla skilmála og hafi þá Flugbætur sent kröfu á Air Iceland Connect, sem hafnaði kröfunni.

„Ég hélt satt að segja að við værum komin lengra í málum sem snúa að neytendavernd en þetta. Þetta eru viðskiptahættir sem eru algjörlega óboðlegir.“

„Ég hef aldrei nokkurn tímann heyrt af slíku áður. Þetta er gert með einum tilgangi, til að reyna að draga úr kröfum,“ segir Ómar í samtali við Fréttablaðið.

Flugfélagið vísaði til umræddra skilmála, þar sem farið er fram á að farþegar megi ekki fá lögmenn eða aðra innheimtuaðila til þess að krefjast bóta fyrir sína hönd.

Þá áskilur Air Iceland Connect sér einhliða 30 daga svarrétt og tekur fram að bætur séu aðeins greiddar inn á reikninga viðkomandi farþega en ekki inn á fjárvörslureikning innheimtuaðila.

„Þetta skýtur skökku við, að risastórt flugfélag skuli reyna að bregða fæti fyrir viðskiptavini sína með þessum hætti. Air Iceland Connect er hluti af Icelandair Group, sem er félag sem er skráð á hlutabréfamarkað. Félagið hefur heilan her lögmanna á sínum snærum en reynir svo að koma í veg fyrir að farþegar leiti til sérfræðinga, þegar þeir þurfa að innheimta bætur sem þeir eiga lagalegan rétt á. Það er augljóst að þessar breytingar eru miðaðar að því að fækka þeim farþegum, sem krefjast bóta vegna seinkana og aflýsinga,“ segir Ómar.

„Ég hélt satt að segja að við værum komin lengra í málum sem snúa að neytendavernd en þetta. Þetta eru viðskiptahættir sem eru algjörlega óboðlegir.“