Samningur á milli Icepharma og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um þjónustu á sjálfvirkum lyfjaskömmturum í heimahús var endurnýjaður á dögunum og hefur hann nú verið framlengdur til næstu tveggja ára.
Sjálfvirku lyfjaskammtararnir frá finnska fyrirtækinu Evondos, sem Icepharma er í forsvari fyrir hér á landi, munu þannig áfram þjóna íbúum Reykjavíkurborgar sem búa heima og þurfa aðstoð og eftirfylgni við lyfjainntöku.
Á tímabilinu verða samtals um tvö hundruð sjálfvirkir lyfjaskammtarar í notkun hjá Reykjavíkurborg. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar mun annast móttöku og dreifingu á lyfjaskömmturunum til notenda og mun Icepharma styðja við innleiðingu og þjónustu á lyfjaskömmturunum, íbúum og starfsfólki velferðarsviðs til heilla.
Í lyfjaskammtarann eru settar hefðbundnar lyfjarúllur og les tækið þær upplýsingar sem fram koma á hverjum lyfjapoka og skammtar réttum lyfjum á réttum tíma. Lyfjaskammtarinn er með bæði texta- og raddleiðbeiningum á íslensku.
Hægt er að senda persónuleg skilaboð inn í lyfjaskammtarann, til dæmis til að minna viðkomandi á að hann þurfi að nærast eða drekka á ákveðnum tímum eða að viðkomandi eigi von á heimavitjun. Einnig er hægt að spyrja um líðan sem einstaklingurinn svarar síðan í gegnum lyfjaskammtarann og ef einstaklingur gleymir að taka lyfin innan ákveðins tíma koma skilaboð eða viðvaranir í miðlægt kerfi svo heimaþjónustan getur brugðist strax við.