Reykjavíkurborg þarf að greiða stjórnvaldssekt upp á fjórar milljónir króna vegna klúðurs við útboð á uppsetningu og rekstur hleðslustöðva fyrir rafbíla. Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar útboðsmála.

Líkt og Fréttablaðið greindi fyrst frá síðasta haust kærði Ísorka borgina fyrir útboð á 71 hleðslustöð sem koma á upp víðs vegar um borgina til að þjóna rafbílaeigendum sem ekki hafa bílastæði á eigin lóð. Orka náttúrunnar, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, varð hlutskarpast í útboðinu á sínum tíma.

Kærunefndin metur að Reykjavíkurborg sé skaðabótaskyld gagnvart Ísorku og er auk þess gert að greiða fyrirtækinu allan málskostnað, tvær milljónir króna. Samningurinn með öllum framkvæmdum er metinn á rúman hálfan milljarð.

Ísorka taldi að útloka ætti Orku náttúrunnar frá útboðinu þar sem starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur hefðu lesið yfir útboðsgögnin. Þá hefði átt birta tilkynningu um útboðið á evrópska efnahagssvæðinu. Kærunefndin tók undir það og felldi samninginn við Orku náttúrunnar úr gildi.

Reykjavíkurborg hefur verið gert að bjóða út innkaupin að nýju.

Annar skellur á stuttum tíma

Þetta er í annað skiptið á stuttum tíma þar sem viðskipti Reykjavíkurborgar og Orku náttúrunnar fær skell frá kærunefndinni. Nýverið úrskurðaði kærunefndin að Reykjavíkurborg hefði brotið útboðsskyldu sína með samningunum við Orku náttúrunnar varðandi rekstur, viðhald og LED-væðingu götulýsingar. Áætlaður kostnaður er 3,6 milljarðar króna.

Til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu

Þá er Orka náttúrunnar nú til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins snýr að meintum brot að sölu, uppsetningu og þjónustu ON á hleðslustöðvum og hleðslum fyrir rafbíla. Byggir kæran á gögnum sem fengust í gegnum upplýsingalög. Borgarráð óskaði í vor eftir að Orka náttúrunnar verði undanþegið frá upplýsingalögum.