Reykjavík kemst ekki á listann yfir þær 209 borgir sem er dýrast að búa í samkvæmt nýjasta lista ráðgjafarfyrirtækisins Mercer. Ashgabat, höfuðborg Túrkmenistan, er sú borg sem dýrast er að búa í á heimsvísu.

Ashgabat tekur fram úr Hong Kong sem hafði trónað á toppnum síðustu þrjú ár. Verðbólga undanfarinna ára hefur gert það að verkum að kostnaður þess að búa í Ashgabat hefur snarhækkað en á sama tíma er efnahagsástand íbúa í borginni afar bágborið.

Af tíu dýrustu borgum heims eru þrjár þeirra í Evrópu, allar eru þær í Sviss. Zürich, sem er dýrasta borg Evrópu, er í fimmta sæti listans. Hástökkvari þessa árs er Beirút, höfuðborg Líbanon, sem stekkur upp um 42 sæti í 3. sæti listans og Kaupmannahöfn er í 16. sæti eftir að hafa verið í 25. sæti í fyrra.