Lúxemborgska eignaumsýslu- og ráðgjafafyrirtækið Reviva Capital, sem var stofnað af Ara Daníelssyni og þremur öðrum fyrrverandi lykilstarfsmönnum Glitnis í Lúxemborg árið 2010, hefur fest kaup á tæplega tíu prósenta hlut í fjármálafyrirtækinu T Plús. Seljandi er Íslensk verðbréf.

Fram kemur á vef T Plús að endanlegir eigendur Reviva Capital séu framkvæmdastjórinn Ari og fjármálastjórinn Paul Embleton. Lúxemborgska félagið hafði áður umsjón með umsýslu og innheimtu eignasafns Glitnis og Landsbankans í Lúxemborg.

Talsverðar breytingar urðu sem kunnugt er á hluthafahópi T Plús snemma síðasta árs þegar aðaleigendur Fossa markaða, Festa lífeyrissjóður og VÍS, keyptu hlut í félaginu af Íslenskum verðbréfum.

Fossar Markets Holding, sem er í eigu hjónanna Sigurbjörns Þorkelssonar, stjórnarformanns Fossa markaða, og Aðalheiðar Magnúsdóttur, Haraldar I. Þórðarsonar, forstjóra Fossa markaða, og Steingríms Arnars Finnssonar, framkvæmdastjóra markaða Fossa, fer með 9,99 prósenta hlut í T Plús, rétt eins og Festa lífeyrissjóður, en eignarhlutur VÍS nemur fimmtán prósentum.

Auk fyrrnefndra hluthafa fer Arctica Finance með 9,9 prósenta hlut í T Plús, Stapi lífeyrissjóður með 9,0 prósenta hlut og Umsýslufélagið Verðandi, í eigu Hinriks Bergs, fer með 35,6 prósenta hlut.

T Plús, sem er staðsett á Akureyri, sérhæfir sig meðal annars í vörslu- og uppgjörsþjónustu verðbréfa og eru helstu viðskiptavinir fyrirtækisins fjármálafyrirtæki, fagfjárfestar, lífeyrissjóðir og vörsluaðilar séreignarsparnaðar.