Það var stór efnahagsaðgerð að hleypa bólusettum ferðamönnum sem hafa ríkisfang utan Schengen-svæðisins inn í landið, að mati Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra iðnaðar, nýsköpunar og ferðamála. Samstaða hafi þó líka verið um að sóttvarnarök hafi ekki hnigið að því að mismuna bólusettum ferðamönnum á grundvelli ríkisfangs.

„Rökin fyrir öllum þessum aðgerðum á landamærunum voru á forsendum sóttvarna. Þegar það lá fyrir að bólusett fólk frá Þýskalandi eða Danmörku gæti komið til landsins var langsótt að bólusettum Bretum eða Bandaríkjamönnum yrði bannað að koma til landsins. Þannig að ég og fleiri lögðum á það mikla áherslu að taka þá ákvörðun að hleypa bólusettum ríkisborgurum utan Schengen til landsins, við sjáum að það var rétt ákvörðun og mikilvæg áhersla,“ segir hún.

Í gegnum heimsfaraldurinn virtust leikreglur Schengen samstarfsins fara fyrir lítið, að sögn Þórdísar. Ákvörðun Íslands um að hleypa bólusettum ferðamönnum hvaðanæva úr heiminum hafi verið einhliða:

„Í eðlilegu árferði hefði slík ákvörðun kallað á ákveðið ferli innan Schengen. En við tókum þessa ákvörðun á okkar forsendum. Við sáum það á síðustu 18 mánuðum að það er ekki eins og Schengen-samstarfið hafi virkað alveg eðlilega, ríki voru að taka alls konar ákvarðanir, stundum með ansi langsóttum rökstuðningi. Stundum á vísindalegum grunni en stundum á pólitískum grunni.

Við tókum þessa ákvörðun á okkar á forsendum. Við höfum gripið til mjög harðra aðgerða á landamærunum undanfarið ár til að vernda líf og heilsu landsmanna. Þegar sóttvarnarökin voru ekki lengur fyrir hendi á landamærunum fannst mér og fleirum mikilvægt að við opnuðum landið fyrir bólusettum einstaklingum, ekki síst til að veita súrefni inn í efnahagslífið.

Við sjáum strax að þessi ákvörðun hefur reynst vel og hefur í raun verið stór efnahagsaðgerð. Áhugi á Íslandi er mikill og landið er tiltölulega opið, það eru ekki mörg lönd með þessa sömu greiðu leið inn í landið fyrir bólusetta einstaklinga þó að fleiri séu um þessar mundir að opna sína landamæri meira en áður. En á sama tíma er mikilvægt að muna að það er sameiginlegt verkefni heimsbyggðarinnar að tryggja víðtækt hjarðónæmi með markvissum bólusetningum,“ segir ráðherrann.

Tekist á um sóttvarnir

Landsmenn hafa vanist því á síðastliðnu ári að fréttamenn bíði fyrir utan ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu, eða aðra fundarstaði ríkisstjórnarinnar, eftir nýjum ákvörðunum um herðingar eða tilslakanir á sóttvörnum. Út á við virtist ávallt góð samstaða í ríkisstjórn um aðgerðir vegna faraldursins, en Þórdís segir að heilbrigð umræða hafi ávallt átt sér stað innan ríkisstjórnarinnar um sóttvarnaraðgerðir.

Mér fannst þríeykið líka gera það vel í upphafi að tala manneskjulega við fólk og svara spurningum fjölmiðla heiðarlega. Það jók traustið á verkefninu sem við stóðum frammi fyrir.

„Auðvitað voru málin rædd út frá öllum sjónarhornum í ríkisstjórninni. Mér hefði ekki liðið vel ef ekki hefði verið skiptst á skoðunum um þessi mál. Það er samt þannig að þessi hópur sem situr við ríkisstjórnarborðið ræður vel við það. Það er heilbrigt að tekist sé á um erfið mál. Enginn hefur tekist á við svona nokkuð áður og engin fordæmi fyrir þessari stöðu.

Þegar þessu verður öllu lokið er fyrst hægt að dæma um hvernig gekk. Sumum fannst við gera of mikið, öðrum of lítið, en heilt yfir hefur þetta gengið vel miðað við önnur lönd. Okkur hefur tekist að halda pólitískum stöðugleika, við höfum ráðist í markvissar efnahagsaðgerðir sem hafa virkað. Svo má auðvitað nefna að við njótum góðs af því að vera eyja, við erum fá, innviðir samfélagsins sterkir og samstaða þjóðarinnar var mikil.“

Endalausir upplýsingafundir

Við upphaf faraldursins voru upplýsingafundir þríeykisins svokallaða haldnir í færanlegum skúr við hlið Landspítalans. Þegar á leið var húsnæði tekið á leigu við Katrínartún í Reykjavík, þar sem veglegu myndveri almannavarna var komið á legg. Síðastliðið ár hafa síðan ýmsir atburðir verið teknir til umfjöllunar í myndverinu við Katrínartún. Svo sem jarðhræringar á Reykjanesskaga, eldgos í Geldingadölum og loks sinubrunahætta í kjölfar þurrkatíðar á vormánuðum.

Er þetta leiðin til að stýra landinu? Er rétt að standa fyrir reglulegum, beinum útsendingum frá myndveri almannavarna, sóttvarnalæknis eða annarra stofnana til að vara fólk við nýjustu hættunni sem gæti að þeim steðjað? Er þetta ekki til þess fallið að skapa óþarfa geðshræringu meðal landsmanna?

„Í upphafi, þegar enginn vissi raunverulega hvað var í gangi, skipti máli að almenningur sæi að öflugt fólk væri við stjórnvölinn og að ráðleggja ríkisstjórninni. Mér fannst þríeykið líka gera það vel í upphafi að tala manneskjulega við fólk og svara spurningum fjölmiðla heiðarlega. Það jók traustið á verkefninu sem við stóðum frammi fyrir. Þegar um það bil ár var liðið af faraldrinum fannst mér fundirnir kannski ekki allir jafn mikilvægir. Auðvitað er almennt gott að sérfræðingar upplýsi fólk. Fólk bregst mismunandi við ytri hættum og er misskelkað og því er erfitt að finna rétt jafnvægi í þessum efnum.“

Bindur vonir við breytt raforkulög

Fyrr í vetur lagði Þórdís Kolbrún fram frumvarp um breytingar á raforkulögum. Meðal veigamestu atriða þar eru breytingar á lögum er tengjast Landsneti, sem annast uppbyggingu og rekstur flutningskerfis raforku hér á landi. Bæði framleiðendur og stórnotendur raforku á Íslandi eru sammála um að flutningur raforku hér á landi er of dýr, sem endurspeglast meðal annars í því að arðsemi Landsnets er er oft á tíðum meiri en Landsvirkjunar. Fyrrnefnda fyrirtækið er þó með sérleyfi á flutningi raforku, en bent hefur verið á að sérleyfisfyrirtæki eigi að njóta hóflegri arðsemi en raun ber vitni á bókum Landsnets.

„Frumvarpið er í þinginu núna og vinnan í nefndinni gengur vel. Ég tel mikilvægt að þetta mál klárist og hef trú að því að það takist. Auðvitað er alltaf mikið að gera í þinginu stuttu fyrir þinglok, sérstaklega á kosningaári. En ég sé ekki hvað ætti að koma í veg fyrir að þetta klárist. Mér finnst þingmenn sýna málinu mikinn áhuga og atvinnuveganefnd hefur fengið til sín marga gesti í sinni þinglegu meðferð.

Þórdís Kolbrún segir að ekki sé hægt að leggja of mikla áherslu á nýsköpunarmál.

Regluverkið þarf að vera skilvirkt í þessum efnum og við þurfum að ná sem mestri hagkvæmi í kerfinu, þó að það sé oft erfitt þegar sérleyfisfyrirtæki eru veigamikil á markaði. Mér finnst almennt góður skilningur á mikilvægi þess að við séum samkeppnishæf og okkar flutnings- og dreififyrirtæki séu eins vel rekin og mögulegt er. Ég bind vonir við að þingið klári þetta,“ segir Þórdís Kolbrún.

Bent hefur verið á að veginn fjármagnskostnaður Landsnets, sem er grundvöllur verðskrár fyrirtækisins, sé of hár. Landsvirkjun, Samtök iðnaðarins og álframleiðendur bentu á í umsögn sinni um frumvarp til breytinga á raforkulögum að ekki væri nægilega langt gengið í frumvarpinu við að leiðrétta þetta ákveðna atriði.

„Það eru ákveðnar breytingar á þessu atriði í frumvarpinu en svo er þetta að hluta til spurning um útfærslu í reglugerð. En við erum að reyna að finna ákveðið jafnvægi til að samkeppnisstaða Íslands verði sterkari, án þess þó að ganga of nærri rekstri Landsnets. Við teljum okkur vera með gott jafnvægi hvað það varðar.“

Það væri ekki gott ef stofnun sem Samkeppniseftirlitið, sem hefur mikil áhrif á atvinnulífið með sínum ákvörðunum, nyti ekki trausts atvinnulífsins.

Ríflegur hluti stóriðju á Íslandi er í kjördæmi Þórdísar, en bæði álver Norðuráls og járnblendiverksmiðja Elkem eru á Grundartanga í Hvalfirði.

„Ég er í reglulegu samtali við þessi fyrirtæki og það hefur gengið vel hingað til. Þá á ég við bæði forsvarsmenn fyrirtækjanna og kannski sérstaklega þróunarfélagsins sem er að líta til uppbyggingar iðnaðarsvæðisins á Grundartanga. Þróunarfélagið er að einbeita sér að nýjum möguleikum til uppbyggingar á Grundartanga, til að mynda uppbyggingar glatvarma. Mjög stór hluti glatvarma frá iðnaðarstarfsemi er ónýttur hér á landi og því þarf að breyta. Ein af þeim breytingum sem eru í frumvarpinu um raforkulögin snýr að því að skerpa á og einfalda nýtingu glatvarma, en þar er mikil raforka sem fer til spillis.

Það er algjört lykilatriði að tryggja að þessi erlendu fyrirtæki sem hér starfa búi við samkeppnishæft umhverfi. Tækifæri í uppbyggingu iðngarða og grænna fjárfestinga, svo sem vetnisframleiðslu og annarrar framleiðslu til að stuðla að orkuskiptum hér á landi og til útflutnings eru gríðarleg. En öll sú fjárfesting á það sameiginlegt að þurfa endurnýjanlega orku og heilmikið hugvit.“

Fraunhofer-skýrslan gagnleg

Skýrsla þýska ráðgjafarfyrirtækisins á samkeppnishæfni íslensks raforkumarkaðar var birt almenningi síðasta haust, en hennar hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Skýrslan fól í sér samanburð á nýjustu tiltæku orkuverðum á Íslandi og í samanburðarlöndunum Þýskalandi, Noregi og Kanada. Margir söknuðu vangavelta um framtíðarhorfur, en á þeim tíma sem skýrslan kom út hafði orkuverð á meginlandi Evrópu lækkað mikið og var til að mynda lægra víða í Noregi en á Íslandi, þó að sú staða hafi snúist aftur við síðan þá. Að sama skapi var ein af niðurstöðum skýrslunnar að flutningskostnaður raforku væri of hár á Íslandi.

„Skýrsla Fraunhofer varpaði fínu ljósi á stöðuna. Niðurstaðan var sú að almennt séð hefði Ísland verið samkeppnishæft á þeim tíma sem rannsakaður var í skýrslunni. Þar kom líka fram að tækifæri væru til úrbóta, meðal annars með tilliti til flutningskostnaðar. Við fórum því beint í að rannsaka það mál hratt og vel og lögðum fram áðurnefndar breytingar á lagaumhverfinu raforku sem snýr að þeim þætti. Við brugðumst því hratt við þessum ábendingum og ef frumvarpið verður samþykkt er nokkuð ljóst að það mun skila sér í lækkun flutningskostnaðar.

Við erum ekki að fara að setja meiri fjármuni í alla málaflokka áfram á næsta kjörtímabili, þar sem forsendur ríkisfjármála eru gjörbreyttar.

Ég vil að hér geti þrifist fjölbreytt fyrirtæki sem þurfa raforku. Ég vil að hér sé næga orku að hafa og það sé auðvelt að flytja hana og að það sé ekki dýrara en það þarf að vera. Ég vil að það sé samkeppni á raforkumarkaði. Hún er vissulega fyrir hendi að nokkru leyti en hins vegar eimir ennþá af gamla tímanum. Landsvirkjun er mjög stór aðili hér á markaði og opinbert eignarhald er alltumlykjandi í kerfinu í heild. Þá er ég að vísa í framleiðslu á raforku og sölu sem hvoru tveggja er á samkeppnismarkaði samkvæmt lögum, ólíkt flutningi og dreifingu sem er sérleyfisskyld starfsemi. Samkeppnin hefur verið að aukast á smásölumarkaði, sem er gott. En það er hægt að efla samkeppni á fleiri sviðum.“


Sækist áfram eftir varaformennsku


Þórdís hefur nú gengt embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins í um það bil þrjú ár. Hún segist munu áfram sækjast eftir því að gegna hlutverki í forystu flokksins. Ekki sé þó tímabært að ræða formannsframboð.

„Það styttist í næsta landsfund þar sem ég mun áfram óska eftir umboði til að vera í forystu flokksins. Ég hef notið trausts frá sjálfstæðisfólki um allt land og ég hef gert mitt allra besta til að standa undir því. Ég hef sterka sýn á því hvernig flokkurinn eigi að þróast. Flokkurinn skilur framtíðina og á því erindi við hana. Ef ég fæ umboð til þess að leiða flokkinn á einhverjum tímapunkti þá væri ég tilbúin til þess. Tíminn verður að leiða það í ljós. Við erum með öflugan og farsælan formann í Bjarna Benediktssyni.“

Margt í núverandi stjórnarsamstarfi sem hefur gengið vel, að mati Þórdísar. Vísar hún þar meðal annars í mælingar á stuðningi við ríkisstjórnina.

„Ríkisstjórnin hefur haldið góðum stuðningi í gengum kjörtímabil þar sem ýmislegt hefur gengið á. Sjálfstæðisflokkurinn er ennþá stærsti flokkur landsins og við munum leggja okkur fram við að halda þeirri stöðu og fá enn sterkara umboð frá kjósendum til að taka þátt í stjórn landsins. Ég finn fyrir jákvæðni í okkar garð og gagnvart þeim áherslum og verkefnum sem við höfum unnið að.

Kjaramál voru eitt af stóru málunum í upphafi þessa stjórnarsamstarfs og stórir áfangar náðust í þeim efnum. Hins vegar standa eftir spurningar um hvernig við ætlum að standa að kjaraviðræðum til framtíðar. Í löndunum í kringum okkur hefjast kjaraviðræður á spurningunni um hvað sé mikið til skiptanna en það hefur vantað upp á það hér heima. Það mætti halda því fram að ekki hafi verið innistæða fyrir þeim launahækkunum sem Lífskjarasamningarnir fólu í sér.

Á næsta kjörtímabili er ýmislegt sem við getum ekki leyft okkur áfram. Fyrir kórónuveiruna jukust útgjöld allra málaflokka. Það er augljóst að við getum ekki haldið áfram að auka útgjöld á þessum hraða. Ég lít svo á að því tímabili sé lokið. Við erum ekki að fara að setja meiri fjármuni í alla málaflokka áfram á næsta kjörtímabili, þar sem forsendur ríkisfjármála eru gjörbreyttar. Það þýðir ekki að við getum ekki sótt fram, bætt þjónustu og aukið lífsgæði á Íslandi, þvert á móti eru gríðarleg tækifæri til að gera nákvæmlega það. Með nýsköpunina að vopni, byltingu í stafrænni þjónustu, einföldun regluverks og kjark til að endurskoða fjölmörg verkefni sem hið opinbera sinnir. Það er of algengt að við mælum árangur út frá fjármagni en ekki afköstum og betri þjónustu.“

Orkuskipti kalla á meiri raforku

Það gengur ekki upp að segjast styðja orkuskipti og grænar fjárfestingar ef ekki fylgja með áætlanir um auknar fjárfestingar í raforkuframleiðslu, segir Þórdís Kolbrún.

„Þau sem segjast vilja grænar fjárfestingar og græna framtíð verða að styðja fjárfestingu í aukinni raforkuframleiðslu. Mér finnst margir komast upp með að tala fyrir loftslagsmálum þegar í raun er verið að tala fyrir landvernd sem felur í sér að ekki megi raska neinu í þágu raforkuframleiðslu. Ef við ætlum að fara í raunveruleg orkuskipti kallar það á stórauknar fjárfestingar í raforkuframleiðslu, til dæmis vindinum, það er einfaldlega staðreynd.“

Mikilvægasta úrlausnarefnið varðandi starfsemi Landsnets er að breyta lagaumhverfinu svo mikilvægar framkvæmdir séu ekki fastar í hjólförum kæruferla, segir Þórdís.
Fréttablaðið/Anton Brink

Uppbygging flutningskerfis gengur of hægt

Þórdís Kolbrún segir að helsti vandi flutningskerfisins sé hvað það gangi ótrúlega hægt að ráðast í framkvæmdir.

„Landsnet hefur bætt vinnulagsitt á undanförnum árum með auknu samráði við hagsmunaaðila á fyrri stigum, svo sem sveitarfélög og landeigendur. Kröflulína gengur vel, en svo erum við með aðrar framkvæmdir eins og Suðurnesjalínu 2 og Blöndulínu sem hafa verið á teikniborðinu í mörg ár en komast ekki af stað. Mikilvægasta úrlausnarefnið varðandi starfsemi Landsnets er að breyta lagaumhverfinu svo mikilvægar framkvæmdir séu ekki fastar í hjólförum kæruferla árum eða áratugum saman.

Nú hafa öll sveitarfélög nema eitt gefið út framkvæmdaleyfi og það virðist engin lausn í sjónmáli. Kannski þarf ríkið að stíga inn í þetta mál en auðvitað væri best ef þetta færi í gegnum hefðbundið skipulagsferli. Þetta hefur verið fast í kerfinu í rúman áratug sem er óboðleg staða. Það er margt sem mælir gegn því að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörðu, sérstaklega í ljósi þeirra jarðhræringa sem hafa átt sér stað að undanförnu á Reykjanesskaga, tæknilegra þátta, auk þess sem það samræmist ekki viðmiðum um jarðstrengi sem Alþingi hefur sjálft samþykkt.“

Hlynnt stjórnsýsluúttekt á Samkeppniseftirlitinu

Nýlega lagði hópur þingmanna fram beiðni á Alþingi um að stjórnsýsluúttekt verði gerð á starfsháttum Samkeppniseftirlitsins. Samkeppnismál heyra undir ráðuneyti Þórdísar Kolbrúnar – hvað finnst henni um þessar vendingar?

„Ég greiddi atkvæði með því að þessi úttekt verði unnin. Ég sem markaðssinni tel mikilvægt að skilvirkt og tryggt eftirlit sé til staðar með tilliti til samkeppnismála.

Það væri ekki gott ef stofnun sem Samkeppniseftirlitið, sem hefur mikil áhrif á atvinnulífið með sínum ákvörðunum, nyti ekki trausts atvinnulífsins. Það kemur auðvitað ekki á óvart að sterkir aðilar á íslenskum markaði hafi sterkar skoðanir á eftirlitinu, þar sem þeir eru líka að gæta sinna hagsmuna. Gagnrýnin sem beinst hefur að Samkeppniseftirlitinu hefur verið margvísleg og ég vil ekki skera úr um hvenær hún hefur byggt á einhverju persónulegu, hvenær hún hefur byggst á einstökum ákvörðunum eða á almennum vinnubrögðum.

Við gerðum breytingar á samkeppnislögunum árið 2019 sem voru mjög til bóta að mínu mati. Frumvarpið eins og ég lagði það fram fór þó ekki í gegn óbreytt, það var ýmsu breytt í því og ágætt og gagnlegt að sú umræða skyldi vera tekin.

En um þessi mál vil ég segja að því frjálsari sem markaðurinn er því mikilvægara er að samkeppniseftirlit sé skilvirkt og gagnsætt. En ég auðvitað heyri þegar talað er um að ýmislegt megi betur fara í vinnulagi Samkeppniseftirlitsins. Á sama tíma verðum við að hafa í huga að aðilar á markaði munu alltaf verja sína hagsmuni, líka gagnvart Samkeppniseftirliti sem meðal annars á að tryggja að nýir aðilar geti komist inn á markaðinn og keppt.“

Segir umhverfi nýsköpunar hafa batnað mjög

Þórdís Kolbrún segir að ekki sé hægt að leggja of mikla áherslu á nýsköpunarmál. „Það er alveg sama hvaða málaflokk þú leggur á borðið, nýsköpun er alltaf svarið. Ef við lítum til heilbrigðis- og öldrunarmála, menntamála, loftslagsmála eða aukin verðmætasköpun takmarkaðra auðlinda. Nýsköpun þarf að vera þarna alls staðar.

Þau sem segjast vilja grænar fjárfestingar og græna framtíð verða að styðja fjárfestingu í aukinni raforkuframleiðslu.

Kría er eitt dæmi um aðgerðir okkar í nýsköpun, en sá sjóður var settur á fót vegna þess að fjármögnunarumhverfi vaxtar- og vísisfyrirtækja er að mörgu leyti öðruvísi en rótgróinna fyrirtækja. Við sjáum að í kjölfar stofnunar Kríu hafa margir sprotasjóðir sprottið upp á skömmum tíma og hátt í 20 milljarðar safnast þangað inn. Einhverjir halda því fram að of margir sprotasjóðir hafi orðið til að undanförnu. Ef það er sérstakt vandamál að of mikið fjármagn sé í boði fyrir sprotafyrirtæki um þessar mundir, þá myndi ég telja það lúxusvandamál þótt auðvitað þurfi að vera jafnvægi hér eins og annars staðar.

Síðan vil ég líka nefna að endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar voru hækkaðar og framlengdar. Ég sé að kallað er eftir því að þetta úrræði verði framlengt eða gert varanlegt. Það er hugsanlegt að þetta verði að kosningamáli, þetta kerfigagnast fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum, bæði nýjum og gömlum. En það þarf að greina hvaða árangri þessar auknu endurgreiðslur eru að skila og sú vinna er að fara af stað.

Það er alveg ljóst að fyrirtækin telja þetta skipta höfuð máli í sókn þeirra í krefjandi umhverfi og við sjáum vöxt fyrirtækjanna, auknar fjárfestingar þeirra í rannsóknum og þróun og fjölgun starfa svo það er óhætt að halda því fram að úrræðið er jákvætt og skiptir okkur sem samfélag miklu máli.“