Netöryggisfyrirtækið AwareGO, sem meðal annars er í eigu Eyris Invest, stefnir á að sækja fjármagn til hraðs vaxtar á næstu misserum. Íslenskum fjárfestum sem erlendum verður boðin þátttaka. Þetta segir Ari Kristinn Jónsson, fráfarandi rektor Háskólans í Reykjavík (HR), sem taka mun við starfi forstjóra AwareGO um mánaðamótin af Ragnari Sigurðssyni, einum stofnenda fyrirtækisins, sem mun starfa áfram hjá því. Þórður Magnússon, aðaleigandi Eyris Invest, er stjórnarformaður AwareGO.

Hvers vegna ferðu frá því að reka glæsilegan háskóla í að stýra litlu sprotafyrirtæki?

„Ég hef starfað lengi hjá HR, gekk til liðs við háskólann árið 2007 og hef verið rektor frá janúar 2010. Það starf hefur gengið afskaplega vel og HR stendur vel að vígi í dag. Ég hef hins vegar alltaf haft áhuga á sprotastarfsemi og nýsköpun. Það má að hluta til rekja til þess að ég varði sextán árum í Kísildal, fyrst sem nemandi við Stanford-háskóla og síðar starfaði ég við þróun gervigreindar hjá NASA, geimferðastofnun Bandaríkjanna. Frá því að ég sneri aftur til Íslands hef ég verið viðloðandi sprota með ýmsum hætti. Ég hef verið stjórnarformaður Videntifier Technologies frá stofnun fyrirtækisins árið 2008. Það þróar tækni til að greina myndefni og lögreglan nýtir meðal annars til að berjast gegn ólöglegu efni eins og barnaklámi og Facebook notar til að vinna gegn því að höfundarréttarvörðu efni sé dreift á samfélagsmiðlinum. Auk þess hef ég aðstoðað fleiri sprotafyrirtæki og unnið með stjórnvöldum og grasrótarhópum við uppbyggingu frumkvöðlaumhverfisins hérlendis. Ég hef því ríkan áhuga á að sjá góðar hugmyndir verða að veruleika og hafa jákvæð áhrif á umheiminn. Þegar mér bauðst að stýra AwareGO kynnti ég mér málið vel og komst að því að um væri að ræða kjörið tækifæri til að stökkva á,“ segir Ari Kristinn.

AwareGO aðstoðar fyrirtæki við að vernda tölvukerfi og gögn með því að þjálfa starfsfólk til að bregðast með réttum hætti við tilraunum til innbrota. „Reglulega birtast fréttir um að gögn eða tölvukerfi fyrirtækja hafi verið hertekin af tölvuþrjótum. Mannlegi þátturinn er veikasti hlekkurinn í tölvuvörnum. AwareGO þjálfar starfsfólk í tölvu- og gagnaöryggi til að það gefi til dæmis ekki óvart frá sér lykilorð eða hleypi inn óæskilegum hugbúnaði. Jafnframt hefur AwareGO þróað hugbúnað sem greinir hvar hætturnar leynast hjá hverju fyrirtæki, til dæmis hjá hvaða deild, og veitir starfsmönnum viðeigandi þjálfun til að hægt sé að stoppa í götin,“ segir hann.

Ari Kristinn segir að það sem hafi vakað fyrir honum og þeim sem buðu honum starfið sé að hann hefði þekkingu og reynslu sem nýttist fyrirtækinu vel. Hann sé menntaður í tölvunarfræði og hafi starfað lengi við menntun og þjálfun. Ari Kristinn er með doktorspróf í gervigreind frá Stanford og meistarapróf í tölvunarfræði frá sama skóla.

AwareGO þjálfar starfsfólk með stuttum myndböndum. „Þau fanga athygli fólks og hafa raunveruleg áhrif á hegðun starfsmanna. Mörg kennslumyndbönd eru þurr og alvarleg en við reynum að skemmta fólki samhliða þjálfuninni.“

Er mikil samkeppni á þessum markaði?

„Það ríkir mikil samkeppni í tölvuöryggisgeiranum. Þekktustu fyrirtækin á því sviði bjóða vél- og hugbúnaðarlausnir til að koma í veg fyrir tæknileg innbrot en fæst þeirra sinna mannlega þættinum. Á þeim markaði felast mikil tækifæri og tímasetning til að sækja fram er hárrétt núna. Fyrir um áratug beindist öll athyglin í tölvuöryggismálum að tæknilausnum en nú beinist kastljósið í ríkari mæli að mannlega þættinum og þar bjóðum við upp á bestu lausnina.“

Nú er AwareGO að safna fé til vaxtar. Hve hratt telurðu að fyrirtækið geti vaxið á næstu árum?

„Ég tel að við getum vaxið afar hratt, veltan mun margfaldast. Við erum í þeirri stöðu að geta tvöfaldað viðskiptavinafjöldann á skömmum tíma. Ef við getum það nokkrum sinnum verður margfeldið mikið. Við ættum að geta tugfaldað fjölda viðskiptavina og notenda. Við getum vel staðið undir því.“

Á meðal viðskiptavina AwareGO eru Credit Suisse, Barclays, Gener­al Electric og Mondelez Inc, einn stærsti matvöruframleiðandi í heimi. Fram hefur komið í fréttum að tekjurnar rúmlega tvöfölduðust á milli áranna 2019 og 2020 og hafi þá numið um 80 milljónum króna.

Starfsmenn AwareGO eru hátt í 30. „Starfsemin er fyrst og fremst í Borgartúni en við erum með þróunarteymi í Prag og söluteymi í Evrópu og Bandaríkjunum. Það skiptir miklu máli að vera í návígi við viðskiptavini.“

Af hverju ertu stoltastur í starfi þínu sem rektor HR undanfarin ellefu ár?

„Mig langar að nefna tvennt. Þegar ég tók við sem rektor árið 2010 var fjárhagurinn bágborinn eftir fjármálahrunið. Með samheldnu átaki góðs fólks tókst að snúa rekstrinum við. Það gerðum við fyrst og fremst með því að auka tekjurnar. Nemendum fjölgaði, samstarf við atvinnulífið var eflt og við sóttum fjármuni í meira mæli í samkeppnissjóði til að sinna rannsóknum. Á öllum vígstöðvum höfum við aukið tekjur og nýtt þær til að efla og bæta kennslu, rannsóknir og nýsköpun.

Hitt er að við höfum náð miklum árangri í gæðum og framþróun kennslu. Eftirspurn eftir því að nema við HR fer stöðugt vaxandi. Allar úttektir, vottanir og skýrslur sýna svo að við erum á réttri leið. HR er til dæmis efstur íslenskra háskóla á lista Times Higher Education. Okkar hlutverk er að mennta fólk á þann veg að það nýtist til að skapa verðmæti í atvinnulífinu og auka lífsgæði í samfélaginu.“

Að því sögðu, hvernig er menntakerfið að standa sig í að mennta fólk til að starfa við tækni og nýsköpun? Tæknifyrirtæki eiga í alþjóðlegri samkeppni og þurfa því vel menntað starfsfólk til að fóta sig.

„Nemendur á Íslandi eru heilt yfir góðir en það eru þættir í skólastarfinu þar sem gera mætti betur. Það þarf að styrkja grunn nemenda fyrir háskólanám, ekki síst tækninám, á fyrri skólastigum. Að sama skapi þarf að vekja áhuga nemenda í grunn- og framhaldsskólum á tækni og viðskiptum. HR hefur unnið markvisst að því. Til að tryggja gæði náms og að verið sé að miðla nýjustu þekkingu er mikilvægt að innlendar menntastofnanir eigi í alþjóðlegu samstarfi. Jafnframt þarf að brjótast út úr þeim hugsunarhætti, sem ríkir víða um heim, að verið sé að mennta fólk til ákveðinna starfa. Það þarf að mennta nemendur fyrir fjölbreytt æviskeið í atvinnulífinu. Ungt fólk leitast eftir því að vinna að fjölbreyttum verkefnum en það mun óhjákvæmilega skipta um störf vegna tæknibreytinga því heimurinn er að breytast hratt.“

Einu mistökin eru að reyna ekki

Ari Kristinn var sextán ár í Kísildal, þangað sem mörg af þekktustu nýsköpunarfyrirtækjum heimsins eiga rætur að rekja. „Þar má frumkvöðlum mistakast. Orðspor þeirra bíður ekki hnekki heldur er litið svo á að þeir hafi lært mikið af vegferðinni og séu því vel í stakk búnir til að fara af stað með næstu hugmynd. Staðreyndin er sú að við lærum ekkert minna af mistökum en velgengni. Hugarfarið er að breytast í þessa átt hér á landi og víðar í Evrópu. Stokkhólmur er til dæmis orðin uppspretta glæsilegra nýsköpunarfyrirtækja. Ég á mynd heima sem konan mín gaf mér. Á henni stendur: „Einu mistökin eru að reyna ekki“,“ segir hann.