Rekstrartap stéttarfélagsins VR nam 210 milljónum króna á síðasta ári og jókst töluvert frá árinu 2018 þegar það nam 62 milljónum króna. Ef tekið er tillit til fjármagnsliða, sem höfðu jákvæð áhrif á afkomuna að fjárhæð 1,1 milljarð króna, hagnaðist VR um rúmlega 900 milljónir. Hagnaðurinn jókst um rúmlega 500 milljónir milli ára sem má meðal annars rekja til stórbættrar ávöxtunar verðbréfasafns stéttarfélagsins.

Þetta kemur fram í ársreikningi VR fyrir árið 2019 sem verður lagður fyrir aðalfund félagsins í næstu viku. Tekjur VR námu 4,5 milljörðum króna á síðasta ári og jukust um 250 milljónir á milli ára. Á móti vógu kostnaðarhækkanir, meðal annars vegna aukningar í bótagreiðslum og skrifstofukostnaði. Útgjöld vegna bóta og styrkja námu 2,7 milljörðum króna og jukust um rúmlega 200 milljónir á milli ára.

Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður jókst um 130 milljónir króna.

Fram kemur í skýrslu stjórnar VR að aukning á greiðslu sjúkradagpeninga hafi verið veruleg á síðustu árum, en greiðslurnar jukust um 10 prósent milli áranna 2018 og 2019. Á sama tímabili jukust iðgjaldatekjur sjúkrasjóðs VR einungis um 6 prósent. Á aðalfundi VR í fyrra var lögð fram breyting við reglugerð sjóðsins til að bregðast við útgjaldaaukningunni.

Þá var greitt úr vinnudeilusjóði félagsins í fyrsta sinn í þrjátíu ár en tilgangur hans er að veita félagsmönnum sem missa atvinnutekjur vegna vinnustöðvunar eða verkbanna fjárhagsaðstoð.

Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður jókst um 130 milljónir króna en hann nam 909 milljónum í fyrra samanborið við 778 milljónir árið 2018.

Eignir VR námu tæplega 14,4 milljörðum króna í lok árs samanborið við tæplega 12,8 milljarða árið 2018 og bókfært eigið fé nam 13,7 milljörðum. Þar af voru rúmlega 11,9 milljarðar króna bundnir í verðbréfum og verðbréfasjóðum, og varanlegir rekstrarfjármunir námu 1,9 milljörðum króna.

Nafnávöxtun verðbréfaeigna VR nam 11,9 prósentum samanborið við tæp 5 prósent árið 2018. Stéttarfélagið var með um 7,3 milljarða króna í ríkisskuldabréfum, 600 milljónir í innlendum hlutabréfum og 2,1 milljarð í erlendum hlutabréfum.