Rekstur fjölda netverslana sem komið hefur verið á fót að undanförnu mun valda vonbrigðum vegna þess að eigendur þeirra hafa ekki varið fé í markaðssetningu þeirra. Þetta segir Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Sahara.

„Margir brugðust við aðstæðum á markaði vegna kórónaveirunnar með því að opna netverslun. Sumir gerðu þau mistök að huga ekki að markaðssetningu netverslunarinnar. Á næstu átta til tólf mánuðum mun rekstur margra þeirra lognast út af, af þeim sökum.

Það er ekki nóg að opna netverslun heldur þarf að hlúa að henni með skipulögðu markaðsstarfi og huga að tengingum við Facebook, Google og fleira. Netverslunum sem sinna markaðsmálum af myndarskap mun vegna mun betur. Það getur kostað 400 þúsund krónur að hengja skilti á verslun við Laugaveg sem er vinsæl göngugata. Það skýtur því skökku við að gera lítið sem ekkert í þá veru fyrir netverslun,“ segir hann.

Sameinuðust fyrir fjórum árum

Sahara, sem á rætur að rekja til ársins 2009, gekk í Samband íslenskra auglýsingastofa á dögunum. „Framleiðslufyrirtækið Silent og markaðsfyrirtækið Sahara sameinuðust fyrir fjórum árum. Fyrirtækin höfðu starfað náið saman og einbeittu sér að netmarkaðssetningu en í kjölfar sameiningarinnar hófum við að bjóða 360 gráðu þjónustu í markaðsmálum en með ríka áherslu á stafræna markaðssetningu.

Í kjölfarið fengum við mikið af minni og meðalstórum fyrirtækjum í viðskipti sem höfðu ekki haft ráð á að vera í viðskiptum hjá auglýsingastofu enda bjóðum við sanngjarnt verð,“ segir Davíð Lúther.

Sigurður Svansson, sem stýrir stafrænum markaðsmálum Sahara, segir að það hafi sýnt sig að samspil allra miðla leiði til góðs árangurs. „Að því sögðu hafa herferðir okkar þar sem einblínt er á stafræna miðla sýnt mikinn árangur,“ segir hann.

Velti nærri 500 milljónum

Að sögn Sigurðar velti Sahara tæplega 500 milljónum króna í fyrra og er með 26 starfsmenn. Sahara er í eigu fjögurra stjórnenda auglýsingastofunnar auk þess sem Kári Þór Guðjónsson fjárfestir gekk nýverið í hluthafahópinn. Hann hefur meðal annars átt í Skeljungi og Fjarðarlaxi.

Davíð Lúther segir að undanfarin ellefu ár hafi fyrirtækið ekki greitt hluthöfum arð heldur fjárfest í uppbyggingu fyrirtækisins; keypt tækjabúnað, bætt við starfsfólki og eflt starfsumhverfið. „Vinnustaðamenningin er til dæmis frábær.“

Sigurður segir að markaðssetning sé lifandi fag. „Það er ekki hægt að kveikja á markaðssetningu og sleppa svo af henni höndunum. Það er aldrei að vita hvernig keppinautar bregðast við, hvort það komi nýir keppinautar eða spretti fram nýjar leiðir til að ná til viðskiptavina.

„Það er ekki hægt að kveikja á markaðssetningu og sleppa svo af henni höndunum.“

Þess vegna erum við ekki lengur að skipuleggja herferðir sem spanna hálft eða eitt ár. Við vinnum í stuttum herferðum sem eru keyrðar þrisvar eða fjórum sinnum yfir árið og þá hafa viðskiptavinir tök á að bregðast við því sem er að gerast í samfélaginu þess á milli. Kórónaveiran err dæmi um það hve hratt aðstæður geta breyst. Þá urðu fyrirtæki að stokka spilin og meta hvað höfðaði til neytenda við þær aðstæður, nú er að létta yfir þjóðinni og þá skapast annað tækifæri. Ef við hefðum framleitt efni út árið í einum rykk hefði það gleymst og ekki hentað nýjum veruleika,“ segir hann.

Pása í fimm vikur

Davíð segir að samkomubannið sem komið var á vegna kórónaveirunnar hafi leitt til þess að viðskiptavinir hafi farið í fimm vikna pásu í markaðsstarfi. „Síðustu tvær vikur hefur verið mikið að gera og fyrirtæki eru að vakna til lífsins. Það er að koma fjöldi nýrra viðskiptavina sem hafa ekki verið framarlega í stafrænum markaðsmálum en áhrif kórónaveirunnar gerðu þeim ljóst að það gengi ekki lengur.“

Hann segir að myndbönd sem birtast á netinu séu þarfaþing í nútíma markaðsmálum. „Það er meðal annars vegna þess að hægt er að kafa ofan í gögnin og sjá hve lengi ólíkir markhópar horfa á myndbandið. Þá er hægt að taka ákvörðun um að verja markaðsfé í þann hóp sem er hrifnastur af vörunni eða þjónustunni. Það væri til dæmis hægt að beina auglýsingum að konum í Hafnarfirði á milli 25-35 ára sem hafa áhuga á hlaupum þegar hlaupaskór eru boðnir til sölu.“

Gæti hófs í sölumennsku

Sigurður segir að gæta verði hófs í sölumennsku á samfélagsmiðlum enda sé fólk oft þar ansi persónulegt. „Fólk vill ekki dvelja lengi á samfélagsmiðlum ef það er öllum stundum verið að selja því eitthvað. Þess vegna er mikilvægt fyrir fyrirtæki að bjóða þar upp á efni sem vekur áhuga.“

Blása til ráðstefnu

Sahara hefur náð samningi um að halda alþjóðlega ráðstefnu um samfélagsmiðla sem ber nafnið Social Media Week. Davíð segir að hún fari líka fram í New York, Los Angeles, London og Kaupmannahöfn.

„Við gengum í gegnum strangt umsóknarferli og eigandi ráðstefnunnar komst að þeirri niðurstöðu að við værum frábær samstarfsaðili hér á landi. Við höfum alla tíð viljað fræða markaðinn og höfum gert það með skrifum á blogg og fyrirlestrum. Við ætluðum að halda fyrstu ráðstefnuna í nóvember en vegna kórónaveirunnar höfum við frestað því um ár.“