Laugar ehf., sem halda utan um líkamsræktarstöðvar World Class, högnuðust um 530 milljónir króna á síðasta ári. Það er um þrefalt meiri hagnaður en á árinu á undan þegar hann nam 179 milljónum króna.

Tekjur félagsins jukust um tæpan hálfan milljarð á milli ára. Þær fóru úr 2.760 milljónum króna á árinu 2017 upp í 3.246 milljónir á síðasta ári.

Hjónin Björn Kr. Leifsson og Hafdís Jónsdóttir eiga hvort 36,6 prósenta hlut í félaginu en restina á Sigurður Leifsson, um 26,8 prósent.

World Class keypti heilsuræktarstöðvar Átaks á Akureyri á síðasta ári. Í ársreikningi félagsins kemur fram að kaupverðið nemi alls 161 milljón króna.