Costco á Íslandi velti 21,2 milljörðum króna á sínu fyrsta heila starfsári sem lauk 31. ágúst í fyrra. Til samanburðar velti Krónan 27 milljörðum króna á tíu mánaða tímabili sem lauk við árslok 2018.

Bandaríska keðjan skilaði 47 milljón króna rekstrartapi hérlendis en í ljósi 185 milljón króna gengishagnaðar hagnaðist verslunin um 138 milljónir króna.

Verslunin naut mikilla vinsælda þegar hún opnaði í maí árið 2017 og velti 8,7 milljörðum króna á rúmlega þriggja mánaða tímabili en reikningstímabilið lauk í ágúst.

Að því gefnu að salan hefði haldið dampi út það rekstrarár hefði salan verið rúmlega 31 milljarður króna eða 86 milljónir á dag. Miðað við það drógust tekjurnar dragast saman um meira en 30 prósent á milli ára.

Eigið fé var 7,7 milljarðar króna við lok reikningstímabilsins og eiginfjárhlutfallið 79 prósent.

Heildarinnkaup frá móðurfélagi og öðrum tengdum félögum nam 8.109 milljónum króna á árinu. Kostnaðarverð seldra vara var 18,3 milljarða króna.

279 starfsmenn unnu hjá Costo á Íslandi á reikningstímabilinu, þar af 193 í fullu starfi og 86 í hlutastarfi. Árið áður störfuðu 397 fyrir fyrirtækið, þar af voru 216 í starfsmenn í fullu starfi og 181 í hlutastarfi.