Bráðabirgðaniðurstöður Icelandair fyrir annan ársfjórðung sýna að tekjur flugfélagsins hafi lækkað um 85 prósent á milli ára. Tekjur flugfélagsins á fjórðungnum námu 60 milljónum Bandaríkjadala, jafngildi tæplega 8,3 milljarða króna.

EBIT – rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði og skatta – var neikvætt á bilinu 100 til 110 milljónir Bandaríkjadala samkvæmt tilkynningu Icelandair um bráðabirgðauppgjörið til Kauphallarinnar. EBIT var því neikvætt um allt að 15,1 milljarða króna. Handbært fé og jafngildi handbærs fjár nam samtals 154 milljónum dala í lok fjórðungsins en það samsvarar 21,2 milljörðum króna.

Eins og Fréttablaðið hafði greint frá stefnir Icelandair að því að klára samninga við fimmtán lánardrottna, stjórnvöld og Boeing fyrir lok mánaðar áður en farið verður í hlutafjárútboð. Stjórnendur félagsins horfa til þess að semja við lánardrottna um lækkun afborgana og eiga í viðræðum við stjórnvöld um skilmála lánalínu til þrautavara.

Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair, sagði að lánardrottnarnir sem Icelandair hefði átt í viðræðum við væru fimmtán talsins en um er að ræða leigusala, færsluhirða, lánveitendur og mótaðila vegna olíuvarna. Viðræðurnar væru flestar komnar vel á veg og væri flugfélagið bjartsýnt á að klára samninga við alla lánardrottna fyrir næstu mánaðamót.

Spurð hvort að Icelandair óski eftir skuldbreytingu við lánardrottna, þ.e.a.s. að kröfum á flugfélagið verði breytt í hlutafé, sagði Eva Sóley að svo væri ekki.

„Viðræðurnar snúast ekki um skuldbreytingu heldur erum við að horfa til þess að styrkja lausafjárstöðu félagsins með því að aðlaga afborganir að áætluðu sjóðsstreymi á meðan félagið flýgur lítið,“ sagði Eva Sóley.

„Grunnsviðsmyndin byggir á því að afborganir til lánardrottna verði aðlagaðar að áætluðu sjóðsstreymi, hluthafar komi inn með nýtt fjármagn og að félagið geti dregið á lánalínu frá ríkinu ef ládeyðan á markaðnum varir lengur en spár okkar gera ráð fyrir.“