Rekstrarhagnaður Regins, sem meðal annars á Smáralind, fyrir matsbreytingu eigna jókst um 8,7 prósent á milli ára og var 1.691 milljón króna á fyrsta ársfjórðungi . Tekjur jukust um 7,7 prósent á milli ára og námu 2.573 milljónum króna á tímabilinu.

Rekstrarhagnaður sem hlutfall af leigutekjum jókst því úr 70 prósentum í 69 prósent á milli ára.

Fimm prósent arðsemi

Arðsemi fjárfestingaeigna án þróunareigna var 4,9 prósent á tímabilinu.

Að teknu tilliti til matsbreytinga nam hagnaður ársfjórðungsins 1.454 milljónum króna samanborið við 304 milljónir árið áður. Matsbreyting fjárfestingareigna, söluhagnaður og afskriftir námu 1.369 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi í ár en sá liður var neikvæður um 51 milljón á sama tíma fyrir ári.

Skýr merki eru um að atvinnulífið sé að taka við sér

„Rekstur félagsins er traustur og fjárhagur sterkur. Skýr merki eru um að atvinnulífið sé að taka við sér og er félagið vel í stakk búið til að taka virkan þátt í kröftugri viðspyrnu með leigutökum sínum,“ segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Fram kemur í fjárfestakynningu að opnun hótela á nýjanleik eftir loknar vegna COVID-19 séu samkvæmt fyrri áætlunum og að gott samstarf sé við hótelrekendur.

Reginn leigi sjö veitingastöðum húsnæði í miðbæ Reykjavíkur. Allir nema einn séu að greiða fulla leigu í samræmi við samninga og það sé í samræmi við áætlanir. „Stærri veitingaeiningar, sem byggja á innlendri eftirspurn, eru enn að glíma við miklar takmarkanir vegna sóttvarnaraðgerða,“ segir í kynningunni.

Bent er á að ekki sé gert ráð fyrir að verslun í miðbæ Reykjavíkur fari á „fullt skrið fyrr“ en með haustinu. Ekki sé ljóst hvenær kvikmyndahús komist á fullt skrið en haft er á orði að langstærstur hluti viðskiptavina vina Regins glími ekki við vandræði sem rekja megi til heimsfaraldursins. Opinberir leigutakar séu að baki 32 prósentum leigutekna. Umfang þess flokks fari stækkandi.

Veltan í Smáralind jókst um 40 prósent á milli ára.

„Aðsókn hefur aukist í Smáralind og mikil veltu aukning. Velta rekstraraðila er 40 prósent hærri á fyrsta ársfjórðungi 2021 miða við sama tímabil í fyrra,“ segir í fjárfestakynningu.

Í fjárfestakynningu segir að mikil áhersla hafi verið lögð á endurfjármögnun Regins. Meðalvextir verðtryggðra lána lækkuðu úr 3,40 prósent í 3,27 prósent á fjórðungnum og meðalvextir óverðtryggðra lána úr 3,81 prósent í 3,48 prósent. Stjórnendur Regins segja að góður árangur hafi náðst í þeim efnum. Væntingar standi til að meðalvextir verðtryggðra lána verði um þrjú prósent í árslok 2021 og hafa þá lækkað um tæpt prósentustig á fjórum árum.