Rekstrarhagnaður fasteignafélagsins Regins fyrir matsbreytingu, fjármagnsgjöld og tekjuskatt jókst um 29 prósent á milli ára og nam tæplega 1,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi. Leigutekjur jukust um 20 prósent á milli ára og námu um 2,3 milljörðum króna á fjórðungnum.

Reginn hagnaðist um 1,4 milljarða króna eftir skatta á þriðja ársfjórðungi, þar af nam matsbreyting fjárfestingaeigna tæplega 1,1 milljarði króna. Hagnaður félagsins jókst um 80 prósent á milli ára.

Raunávöxtun eiginfjár var 13 prósent samanborið við níu prósent á sama tíma fyrir ári.

Getur endurfjármagnað allt að helming lána árið 2020

Reginn undirbýr nú skuldabréfaútgáfu fyrir áramót þar sem boðinn verður nýr millilangur flokkur. Á árinu 2020 skapast tækifæri á að endurfjármagna allt að helming lána félagsins. Í glærukynningu kemur fram að erlend fjármögnun væri til skoðunar ásamt því að gefa út græn skuldabréf og að einnig horft væri til sértryggðra eignasafn í þessu samhengi.

Mikil umsvif hafa verið í útleigumálum í sumar og haust, segir í uppgjörsgögnum. Útleiga á árinu mun slá síðustu árum við. Nýir og endurnýjaðir samningar upp á 38.446 fermetra liggja fyrir. Af þeim samningum eru um 24 prósent endurnýjun.