Rekstrarhagnaður BYKO fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir var 1225 milljónir króna á síðasta ári, sem samsvarar 11 prósent samdrætti milli ára. Hagnaður eftir skatta var 775 milljónir króna, samanborið við 967 milljónir á árinu 2019.

Tekjur á árinu jukust um þrjú prósent og voru tæplega 20,8 milljarðar króna, en þetta kemur fram í ársreikningi BYKO fyrir 2020.

„COVID-19 faraldurinn hefur haft óveruleg áhrif á rekstur félagsins. Á fyrstu vikum faraldursins (mars-apríl) var gripið til varúðarráðstafana sem snéru að skertum opnunartíma, sóttvörnum og öðrum sóttvarnartilmælum stjórnvalda. Þetta hafði áhrif til hækkunar á tilteknum rekstrarkostnaðarliðum en til lækkunar á öðrum. Félagið hefur fylgt tilmælum yfirvalda í hvívetna og jafnvel talið sig ganga lengra en þau hafa kveðið á um,“ segir í skýrslu stjórnar fyrir síðasta rekstrarár.

Sekt vegna samkeppnisbrota hefur verið greidd

Snemma á þessu ári féll dómur Hæstaréttar þess efnis að sekt Byko vegna brots á samkeppnislögum skyldi verða 400 milljónir króna. Í skýringum með ársreikningi Byko kemur fram að sú fjárhæð teljist endanleg og hafi verið greidd. 75 milljónir eru færðar inn í rekstrarkostnað vegna málsins í afkomu ársins 2020.

Í maí 2015 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Byko hefði brotið gegn samkeppnislögum og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið með ólögmætu samráði við gömlu Húsasmiðjuna. Var um að ræða samráð um verð á byggingavörumarkaði.

Málið hófst þegar Múrbúðin tilkynnti til Samkeppniseftirlitsins að Byko og gamla Húsasmiðjan hefði reynt að fá Múrbúðina til að taka þátt í hinu samráðinu. Taldi Samkeppniseftirlitið að um alvarleg brot væri að ræða og lagði 650 milljóna króna sekt á Norvik, móðurfélag Byko.

Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála, í október 2015, var fjárhæðin lækkuð í 65 milljónir. Þeirri niðurstöðu var mótmælt af báðum aðilum.

Héraðsdómur hækkaði sekt félagsins árið 2018 í 400 milljónir og var þeirri niðurstöðu áfrýjað til Landsréttar og á árinu 2019 lá fyrir niðurstaða Landsréttar þar sem sektin var lækkuð í 325 milljónir. Hæstaréttar dæmdi loks í upphafi árs 2021 var að sekt skyldi að nýju hækkuð í 400 milljónir.