Hagnaður Origo jókst í 90 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi. Á sama tíma fyrir ári nam hagnaðurinn 15 milljónum króna.

Landsbankinn segir að uppgjörið hafi verið ágætt, rekstrarbati í öllum einingum og lítið um neikvæð áhrif af COVID-19 á starfsemina. „Afkoman var nokkuð góð en spurning hvort og hvenær ástand efnahagsmála fer að smitast í reksturinn. Stjórnendur benda á óljósara umhverfi í einkageiranum,“ segir í viðbrögðum frá bankanum sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Tekjur Origo jukust um 15 prósent á milli ára og voru um fjórir milljarðar króna á tímabilinu. „Góður vöxtur hefur verið í sölu á fyrstu þremur fjórðungum ársins, ástæðuna er að hluta til að finna í kaupunum á Tölvutek,“ segir í viðbrögðum Landsbankans.

Muni draga úr tekjuvexti

Greinendur Landsbankans vænta þess að draga fari úr tekjuvexti í notendabúnaði vegna ástands efnahagsmála. Á móti vegi að „allur líkur“ séu á „mjög sterkri“ jólaverslun innanlands.

Jón Björnsson, forstjóri Origo, segir að tækifæri sé á að þjóna betur og styrkja rekstur fyrirtækisins enn frekar. Origo muni fjárfesta frekar í eigin vörum. „Samhliða því telur félagið ástæðu til að sækja fram og styrkja enn frekar hugbúnaðarteymi sín, bæði í þróun eigin hugbúnaðarvara ásamt styrkingu á því teymi sem kemur að stafrænum umbreytingarverkefnum,“ segir hann í tilkynningu.

Í viðbrögðum Landsbankans segir að stjórnendur Origo horfi til aukinnar sóknar á erlenda markaði og áframhaldandi þróun á hugbúnaði fyrir ferðaþjónustu.