Rekstrarafkoma tíu stærstu sveitarfélaga landsins á síðasta ári var góð og voru fjárfestingar miklar. Þetta kemur fram í samantekt hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga sem birtist á vef sambandsins.

Fjárfestingar í A-hluta, sem er aðalsjóður sveitarfélags og er fjármagnaður að hluta eða öllu leyti fyrir skatttekjur, jukust um 36% frá árinu 2017 og rekstrarafgangur svaraði til 4,2% af heildartekjum sem er jafnframt aðeins betri árangur en árið áður.

Fjárfesting var umfram það sem reksturinn skilaði og var að hluta til fjármögnuð með lántökum. Þá luku flest sveitarfélög uppgjöri við Brú lífeyrissjóð með lántökum á árinu og hækkuðu skuldir því einnig um það sem þeim nemur. Í krónum jukust því skuldir og skuldbindingar A-hluta um 8,4% og hækkuðu sem hlutfall af heildartekjum úr 109,6% í 112,4% milli ára.

Þegar fyrirtækjum og stofnunum í B-hlutanum er síðan bætt við A-hlutann fæst samstæða sveitarfélaga. Orkuveita Reykjavíkur er langstærst þeirra fyrirtækja sem eru í meirihlutaeigu sveitarfélaga og eru rekstrartekjur fyrirtækisins þá töluvert meiri en Kópavogs svo dæmi sé tekið.

Þá nam rekstrarafgangur af samstæðu tíu stærstu sveitarfélaganna á síðasta ári 6,2% af heildartekjum, sem er talsvert lakari niðurstaða en árið áður þegar afgangurinn var 11,5% af tekjum. Fram kemur að umsnúninginn megi alfarið rekja til Orkuveitu Reykjavíkur og þeirra sveiflna í afleiðum á álverð sem bókaðar séu í reikningum fyrirtækisins.

Þessara áhrifa gætir þó ekki í veltufé þar sem tenging við álverð hefur ekki áhrif á fjárstreymi. Veltufé frá rekstri samstæðnanna nam 18,8% af heildartekjum árið 2018 en 17,4% árið áður.

Heldur dró úr fjárfestingum í B-hluta, hjá fyrirtækjum og stofnunum, á síðasta ári en þar munar ekki hvað síst um minni fjárfestingar Orkuveitunnar. Fjárfestingar samstæðnanna námu 18,5% af heildartekjum árið 2018.