Rekstrar­af­koma fyrir A og B hluta Hafnar­fjarðar var já­kvæð um 2,3 milljarða króna á árinu 2020. Fyrir A hluta var af­koman já­kvæð um 1,6 milljarða króna.

Í til­kynningu frá bænum kemur fram að þrátt fyrir nei­kvæð á­hrif CO­VID-19 far­aldursins á skatt­tekjur og út­gjöld hafi grunn­rekstur bæjar­sjóðs verið traustur á síðasta ári. Við það hafi bæst sala á 15 prósenta hlut bæjarins í HS Veitum og lóða­sölur sem bæði hafa haft já­kvæð á­hrif á rekstrar­niður­stöðu 2020.

„Hafnar­fjörður hefur mætt nei­kvæðum á­hrifum Co­vid-19 far­aldursins með því að styrkja efna­hags­legar undir­stöður sveitar­fé­lagsins,“ segir Rósa Guð­bjarts­dóttir bæjar­stjóri, í til­kynningunni.

„Á undan­förnum árum hefur skulda­við­mið bæjar­sjóðs farið stöðugt lækkandi og með sölu á 15% hlut bæjarins í HS Veitum er svo komið að það hefur aldrei verið lægra. Þessi bætta staða gjör­breytir mögu­leikum bæjarins til að takast á við efna­hags­lega ó­vissu af völdum Co­vid-19. Nú er hægt að snúa vörn í sókn. Við höfum getað haldið uppi öflugri þjónustu við íbúa og mark­vissri upp­byggingu inn­viða og stefnum ó­trauð á frekari fjár­festingar í bænum á komandi árum. Um­tals­verðum fjölda lóða hefur verið út­hlutað á undan­förnum mánuðum, nýjar byggðir eru að rísa og eldri byggð að þéttast. Því má vænta veru­legrar fjölgunar íbúa í Hafnar­firði á komandi árum, til hags­bótar fyrir rekstur sveitar­fé­lagsins og mann­líf í bænum,“ segir Rósa.

Mynd/Hafnarfjörður

Fjár­festingar á árinu 2020 námu 3,4 milljörðum króna

Í til­kynningunni kemur enn fremur fram að hagnaður vegna sölu á hlutnum í HS Veitum hafi numið 2,6 milljörðum eftir skatta og að tekju­færsla af lóða­sölu numið 1,4 milljörðum.

Á móti kemur að gjald­færsla líf­eyris­sjóðs­skuld­bindingar var 884 milljónum krónum hærri en gert hafði verið ráð fyrir í á­ætlunum og fjár­magns­liðir voru 451 milljón króna hærri. Þá má rekja 420 milljóna króna frá­vik frá á­ætlunum í launum og launa­tengdum gjöldum til upp­reiknings á á­föllnu or­lofi í kjöl­far kjara­samninga. Veltu­fé frá rekstri nam 1,6 milljörðum króna eða 5,2 prósent af heildar­tekjum.

Skulda­við­mið Hafnar­fjarðar hélt á­fram að lækka á milli ára. Það var 101 prósent í árs­lok 2020, miðað við 112 prósent í árs­lok 2019, og er því vel undir 150 prósenta skulda­við­miði sam­kvæmt reglu­gerð um fjár­hags­leg við­mið og eftir­lit með fjár­málum sveitar­fé­laga. Ný lán námu 3,8 milljörðum króna en á móti námu greiðslur lang­tíma­skulda alls um 3,2 milljörðum króna.

Fjár­festingar á árinu 2020 námu 3,4 milljörðum króna. Heildar­eignir í lok árs námu sam­tals 67 milljörðum króna og jukust um 7,4 milljarða króna á milli ára. Heildar­skuldir og skuld­bindingar námu sam­tals 50 milljörðum króna og hækkuðu um 4,7 milljarða króna á milli ára.

Árs­reikningurinn er að­gengi­legur á vef Hafnar­fjarðar.