Rekstrarafgangur Íbúðalánasjóðs á síðasta ári nam tæplega 1,4 milljörðum króna. Ársreikningur sjóðsins var staðfestur af stjórninni í dag. Eiginfjárhlutfall sjóðsins var 8,5 prósent og hefur aldrei verið hærra frá stofnun sjóðsins. Fram kemur að útlán í vanskilum hafi lækkað, úr 2,9 prósent niður í 2,1 prósent. 

Á sama tíma lækkar launakostnaður á milli ára um 9,7 prósent og fækkaði stöðugildum úr 77 í 66. Hreinar vaxtatekjur á árinu námu 1,6 milljörðum króna og lækka úr tæplega 1,9 milljörðum frá árinu áður. Rekstrarkostnaður sama tímabils var 1,7 milljarðar og lækkar hann um 1,7 prósent.

Uppbygging 1.325 almennra íbúða

Í tilkynningu sjóðsins til kauphallar segir að ýmis verkefni séu framundan:

 „Íbúðalánasjóður hefur nú þegar úthlutað 7,3 milljörðum króna til uppbyggingar á 1.325 almennum íbúðum víðsvegar um landið. Þar af eru 79% íbúða nýbyggingar og 21% vegna kaupa. Alls 1.163 íbúðir eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu, 52 íbúðir á Norðurlandi, 44 íbúðir á Suðurlandi, 37 íbúðir á Vesturlandi, 14 íbúðir á Suðurnesjum, 11 íbúðir á Vestfjörðum og 4 íbúðir á Austurlandi. Íbúðir skiptast þannig milli notendahópa að 47% íbúða er fyrir einstaklinga undir tekju- og eignaviðmiðum, 27% íbúða eru fyrir námsmenn, 20% íbúða eru félagslegar leiguíbúðir sveitarfélaga, 4% íbúða eru sértæk búsetuúrræði fyrir fatlaða og 2% íbúða eru fyrir öryrkja.“

Aukinn stuðningur við hina verst settu

Rut Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs sjóðsins, segir afkomuna vera í takt við væntingar. Starfsemin beri þess merki að sjóðurinn hafi tekið við nýjum verkefnum og meðan önnur hafa dregist saman. 

Næstu misseri munu áhrif húsnæðisaðgerða sjást í auknu framboði hagkvæms húsnæðis og með auknum stuðningi við hina verst settu á húsnæðismarkaði.