Rekstrarhagnaður Regins fyrir matsbreytingu eigna og afskriftir var 3.746 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins og jókst um 14 prósent frá sama tímabili árið áður. Þá numu rekstrartekjur fasteignafélagsins samtals 5.844 milljónum króna á tímabilinu og hækkuðu leigutekjur félagsins einnig um 14 prósent á milli ára.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu Regins en hagnaður félagsins eftir tekjuskatt var 2.268 milljónir og dróst saman um 21 prósent frá fyrra ári. Bókfært virði fjárfestingareigna Regins í lok þriðja ársfjórðungs var tæplega 128 milljarðar króna og nam matsbreyting eigna á tímabilinu 1.932 milljónum króna.

Í tilkynningu félagsins segir að fyrstu níu mánuðir ársins hafi verið viðburðarríkir og einkennst sem fyrr af miklum umsvifum við fjárfestingar í nýjum verkefnum og leigusamningum.

„Síðasti hluti umbreytingar í Smáralind, stærstu eign félagsins, er nú á lokametrunum. Frá hausti og fram í apríl 2019 munu fimm þekkt alþjóðleg vörumerki opna nýjar verslanir í Smáralind. Þegar hafa verið kynnt áform H&M Home að opna flaggskipsverslun í Smáralind í desember nk. Einnig mun New Yorker opna í nóvember í austurenda hússins og verður sú verslun glæsileg viðbót við alþjóðlega flóru í Smáralind. Í október opnaði H&M verslun á Hafnartorgi fyrir fatnað og H&M Home. Viðtökurnar við þeirri verslun hafa verið mjög góðar,“ segir í tilkynningunni.