Reitir hafa náð sam­komu­lagi við Ís­lenskar fast­eignir ehf. um sölu á svo­kölluðum Orku­reit fyrir 3,8 milljarða ís­lenskra króna. Frá þessu er greint í til­kynningu frá Reitum.

Þar kemur fram að um sé að ræða fast­eignina Ár­múli 31 á­samt öllum ný­byggingar­heimildum á lóðinni í heild í tengslum við nýtt deili­skipu­lag sem þegar hefur verið aug­lýst og er nú í úr­vinnslu hjá Reykja­víkur­borg. Tekið skal fram að kaupin ná ekki til fast­eignarinnar að Suður­lands­braut 34, sem er gamla Raf­magns­veitu­húsið.

Orku­reiturinn er mið­svæðis í borginni, á horni Suður­lands­brautar og Grens­ás­vegar og nær einnig upp að Ár­múla. Reiturinn liggur við fyrir­hugaða Borgar­línu, gegnt úti­vistar­svæði í Laugar­dal og í ná­lægð við fjöl­breytta verslun og þjónustu, meðal annars í Skeifunni.

Gamla Rafmagnsveituhúsið ásamt nýbyggingum séð úr Laugardalnum, handan Suðurlandsbrautar.
Mynd/Reitir

Til­lagan gerir ráð fyrir að lág­reist hús sem standa við Ár­múla víki fyrir 3-8 hæða ný­byggingum í borgar­miðuðu skipu­lagi en gamla Raf­magns­veitu­húsið fær virðingar­sess á lóðinni. Að há­marki verða 436 í­búðir á reitnum á­samt um 4-6 þúsund fer­metrum at­vinnu­hús­næði. Há­marks­byggingar­magn skv. nýju deili­skipu­lagi er rúm­lega 44 þúsund fer­metrar.

A „Orkutorgi“, torgi á miðjum reitnum, sunnan við Orkuhúsið.
Mynd/Reitir
Við Suðurlandsbraut á horni Orkúmúla, götu sem ráðgerð er milli Suðurlandsbrautar og Ármúla.
Mynd/Reitir

Fram kemur í tilkynningunni að kaup­verðið sé greitt með peningum við undir­ritun kaup­samnings. Sam­komu­lagið er gert með fyrir­vara um á­reiðan­leika­könnun á hinu selda og gildis­töku deili­skipu­lags. Gert er ráð fyrir að undir­ritun kaup­samnings og af­hending eigi sér stað á fyrsta árs­fjórðungi 2022.

Með sam­komu­laginu skuld­binda Reitir sig til sam­starfs um hönnun, út­færslu og kaupa á um 1.520 fer­metrum af at­vinnu­hús­næði sem byggt verður á lóðinni.

Salan mun ekki hafa á­hrif á rekstrar­af­komu Reita árið 2021 þar sem af­hending hins selda mun ekki eiga sér stað fyrr en í árs­byrjun 2022. Með sölunni mun rekstrar­hagnaður fé­lagsins lækka um 70 milljónir króna á árs­grund­velli. Sölu­hagnaður vegna við­skiptanna er á­ætlaður um 1.300 milljónir króna.

Hér að neðan er hægt að sjá myndbönd af skipulaginu.

Gengið niður orkumúla með fram Suðurlandsbrautinni.

Drónamyndband af Orkureitnum.

Frá Grensás.

Frá Suðurlandsbraut.