Ýmsir sem starfa á fjármálamarkaði eru hvumsa yfir því að fasteignafélagið Reitir hafi við lok árs 2020 ráðist í hlutafjáraukningu á genginu 43 en horfi nú til þess að kaupa eigin bréf þegar gengið er 75 krónur á hlut.

Í hlutafjárútboðinu í október safnaði fasteignafélagið rúmlega fimm milljörðum króna en í febrúar greiddi félagið 778 milljónir í arð.

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, segir að Reitir hafi sótt fjármagn þegar efnahagslífið glímdi við erfiðleika í ljósi Covid-19 heimsfaraldursins til að styrkja efnahag félagsins og gera það í stakk búið til að nýta möguleg fjárfestingartækifæri sem myndu skapast í eftirmálum bylgjunnar.

„Hlutafjáraukning fyrirtækja er fyrst og fremst málefni og ákvörðun hluthafa og var þessi ákvörðun samþykkt af yfir 85 prósentum hluthafa í félaginu. Hluti fjármunanna var greiddur til baka til hluthafa í formi arðs en félagið hefur síðan fjárfest í fasteignum og þróunarreitum fyrir um sex milljarða á áhugaverðum verðum fyrir hluthafa félagsins,“ segir hann.

Guðjón segir að nú, tæpu ári eftir að hluthafar hafi ákveðið að auka hlutafé Reita, þurfi að slá striki undir þessi mál. Stjórnin þurfi að fylgja annarri ákvörðun sem hluthafar félagsins hafi sett félaginu sem sé að skila um þriðjungi af rekstrarhagnaði hvers árs til hluthafanna í formi arðgreiðslna og/eða endurkaupa.

„Þessi endurkaupaáætlun er fyrst og fremst gerð til þess að fylgja þessari langtímastefnu sem hluthafarnir settu og reyna að koma hlutum í réttan farveg nú þegar Covid-19 heimsfaraldurinn er að mestu að baki,“ segir hann.