Hagnaður Reita fasteignafélags nam 3.324 milljónum króna í fyrra, samkvæmt ársuppgjöri félagsins sem birt var í Kauphöllinni í gærkvöldi. Til samanburðar hagnaðist félagið um 110 milljónir króna árið 2018.

Tekjur Reita, sem áttu fjárfestingareignir að virði ríflega 149 milljarða króna í lok síðasta árs, voru 11.723 milljónir króna í fyrra og jukust um meira en 2,5 prósent frá árinu 2018 þegar þær voru 11.421 milljónir króna.

Rekstrarhagnaður fasteignafélagsins fyrir matsbreytingu var 7.672 milljónir króna í fyrra en alls nam matsbreyting eigna félagsins 2.349 milljónum króna á árinu.

Haft er eftir Guðjóni Auðunssyni, forstjóra Reita, í afkomutilkynningu að reksturinn í fyrra hafi verið ágætur þrátt fyrir nokkurn mótbyr í efnahagslífinu. Félagið hafi notið góðs af lækkandi vöxtum og endurfjármagnað eldri lán með nýrri skuldabréfaútgáfu fyrir rúma tíu milljarða króna.

Hann segir stærstu verkefni ársins hafa falist í aðlögun núverandi húsnæðis í eignasafni félagsins að breyttum þörfum langtímaviðskiptavina.

Fram kemur í afkomutilkynningu Reita að gert sé ráð fyrir að tekjur ársins 2020 verði á bilinu 11.500 til 11.600 milljónir króna og að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu verði 7.600 til 7.750 milljónir króna.