WOW air gat ekki staðið í skilum á um 300 milljóna króna greiðslu, sem átti að greiðast fyrir miðnætti, til Air Lease Corporation (ALC), stærsta leigusala flugfélagsins, samkvæmt heimildum Markaðarins. Sjö vélar WOW air félagsins voru af þeim sökum kyrrsettar og í kjölfarið sendi félagið frá tilkynningu um að það hefði hætt starfsemi.
Sjá einnig: WOW air hættir starfsemi
Skuld WOW air við ALC, sem er í eigu bandaríska milljarðamæringsins Steven Udvar-Hazy, eins ríkasta manns heims, nam í lok febrúar samtals um 1,6 milljörðum, Samkvæmt heimildum Markaðarins höfðu forsvarsmenn ALC staðið fast á því að vélarnar yrðu kyrrsettar ef WOW air stæði ekki í skilum með greiðsluna á tilsettum tíma.
Stjórnendur og ráðgjafar flugfélagsins leituðu í gær allra leiða til að fjármagna greiðsluna til ALC, einkum gagnvart Arion banka, viðskiptabanka félagsins, og einnig skuldabréfaeigenda WOW air, en án árangurs.
Í morgun var öllu flugi WOW air til og frá landinu aflýst. Sagði í tilkynningu frá flugfélaginu að allt flug hefði verið stöðvað á meðan samningaviðræður við nýjan eigendahóp væru á lokametrunum. Skömmu síðar greindi WOW air frá því að félagið hefði hætt starfsemi.