Þjóð­hags­spá gerir ráð fyrir því að verg lands­fram­leiðsla aukist um 1,7 prósent í ár. Það er nokkuð minni aukning miðað við meðal­vöxt síðustu fimm ára sem er um 4,4 prósent. 

Hag­stofa Ís­lands birti spána í dag en sú síðasta var gefin út 2. nóvember. Sú gerði ráð fyrir hag­vexti upp á 3,8 prósent. 

Verri horfur í ár má meðal annars rekja til minni út­flutnings, en reiknað er með tæp­lega 3 prósent aukningu þjóðar­út­gjalda. Næstu ár er gert ráð fyrir að hag­vöxtur verði á bilinu 2,5 til 2,8 prósent. Gert er ráð fyrir að hægja muni á vexti einka­neyslu í ár og að hann verði 3,6 prósent. 

Upp­færðar fjár­hags­á­ætlanir sveitar­fé­laga, á­samt fjár­lögum 2019 sem af­greidd voru í desember síðast­liðnum, gera það að verkum að endur­skoðuð spá fyrir vöxt sam­neyslu í ár er 2,7 prósent. 

Hægt hefur á fjár­festingu að undan­förnu og er á­ætlað að hún aukist um rúm­lega 1 prósent í ár en vaxi hraðar eftir það. Gert er ráð fyrir að fjár­festingar­stig verði lítil­lega yfir meðal­tali síðustu 20 ára sem er í kringum 22 prósent af lands­fram­leiðslu. 

Út­flutnings­horfur hafa versnað frá fyrri spá vegna aukinnar ó­vissu í ferða­þjónustu og líkum á minna fram­boði flugs til landsins á árinu. Reiknað er með 1,6 prósent vexti út­flutnings á árinu. 

Eftir að gengi krónunnar tók að lækka síðast­liðið haust versnuðu verð­bólgu­horfur. Í ár er spáð 3,8 prósent verð­bólgu, þar sem gengis­á­hrif vega þungt. Ó­vissa um verð­bólgu­horfur er þó tölu­verð vegna breytinga í ferða­þjónustu og út­komu kjara­samninga sam­kvæmt spánni.