Tómas Hilmar Ragnarsson, framkvæmdastjóri skrifstofukjarnans Orange Project / Regus, segir mikilvægt að standa í lappirnar í deilum við Regin, leigusala fyrirtækisins, vegna húsnæðis í Ármúla. „Við erum að reyna að leita sátta,“ segir hann. Að sögn Tómasar Hilmars varð Orange Project fyrir miklu tekjutapi vegna aðgerða til að stemma stigu við kórónaveirunni.„Við urðum að loka húsnæði okkar fyrir utanaðkomandi gestum frá 13. mars til 4. maí af heilbrigðis­ástæðum.

Öll viðbótarþjónusta, eins og leiga fundarsala og veitingasala, lá niðri á sama tíma. Allir sex starfsmenn fyrirtækisins smituðust af kórónaveirunni og sumir hverjir voru í einangrun í 28 daga. Að sama skapi töldum við sanngjarnt að lækka okkar verð til að mæta fjárhagskröggum ýmissa viðskiptavina. Í framhaldinu leituðum við til Regins og óskuðum eftir því að þeir sýndu þessum aðstæðum skilning.

Það gerðu þeir ekki og hafa þess í stað sent okkur greiðsluáskoranir og sett sig í samband við viðskiptavini okkar og athugað hvort áhugi væri fyrir því hjá þeim að leigja aðstöðuna áfram af Regin því leigusamningi við okkur hafi verið sagt upp,“ segir hann.

Dómstólar kveði upp dómi

Aðspurður hvort það þýði að Reginn hafi haft í hyggju að taka yfir rekstur Orange Project í húsinu segir Tómas Hilmar að það hafi verið raunin.

„Reginn getur ekki ákveðið það einhliða. Við teljum okkur hafa gildan leigusamning til næstu átta ára með möguleika á að framlengja hann um fimm ár. Það er ekki búið að rifta leigusamningnum. Ef það koma upp vafaatriði þurfa dómstólar að skera úr um það.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur sagt að ríkissjóður eigi að stíga síðastur inn við þessar aðstæður í efnahagslífinu með beina fjárhagsaðstoð.

„Fyrirtækin þurfa að semja við sína kröfuhafa eins og til að mynda leigusala. Það virðist sem dæmi sem leigufélögin ætli ekki að lækka leigu heldur ætlast til þess að aðrir gefi eftir og þau geti haldið áfram að innheimta þessa háu leigu sem hefur myndast víða, sérstaklega í miðbænum, síðustu ár,“ sagði hann í viðtali við Fréttablaðið í maí.

Sömdu við hina leigusalana

Orange Project hefur rekið skrifstofukjarna við Ármúla í sex ár. Það er einnig með starfsemi við Hafnartorg í miðbæ Reykjavíkur og hefur í hyggju að opna í Urðarhvarfi í Kópavogi.

„Við sömdum að nýju við hina tvo leigusalana okkar. Þeir kusu að horfa til hagsmuna sinna til lengri tíma en einblíndu ekki á skammtímasjónarmið,“ segir Tómas Hilmar.Hann segir að viðræður um að greiða lægri leigu til leigusala sé í raun þriggja manna tal.

„Það þarf starfsmann frá leigusala, leigutaka og frá lánveitanda fasteignafélagsins. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum við þessar aðstæður.“

Leigusamningi rift

Fram kemur í bréfi Regins til viðskiptavina Orange Project, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, að leigusamningi við Orange Pro­ject hafi verið rift. Reginn hafi skorað á Orange Project að yfirgefa rýmið án tafar.

„Reginn vinnur nú að því að fá rýmið afhent en samningaviðræður þess efnis hafa ekki borið árangur hingað til eins og við væntum. Reginn mun leita allra löglegra úrræða í því skyni,“ segir í öðru bréfi sem starfsmaður Regins sendi viðskiptavini Orange Project.

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, vildi ekki tjá sig um málefni einstakra viðskiptavina þegar eftir því var leitað. Í síðarnefnda bréfinu segir að Reginn harmi þær ávirðingar og rangfærslur sem komu fram í bréfi sem Orange Project sendi viðskiptavinum sínum „en mun ekki tjá sig um efni þess að öðru leyti, að svo stöddu.“

Eignaupptaka

„Það að taka yfir okkar rekstur,“ segir Tómas Hilmar, „eða til dæmis hótelrekstur sem væri sambærilegt dæmi, er í raun eignaupptaka því fasteignafélögin munu í framhaldinu selja reksturinn. Þau eru ekki sérfræðingar á þessu sviði. Hverju breytir það þá í ljósi þess að ferðamenn eru ekki að koma til landsins hvort reksturinn verður tekjulítill í höndum réttmætra eigenda eða í höndum fasteignafélags?

Þegar viðskipti geta hafist að nýju munu þeir sem hafa reynslu af rekstri skrifstofukjarna ná mun betri árangri en fasteignafélag.“

Tómas Hilmar segir að Reginn hafi boðið Orange Project að greiða lægri leigu í sumar en það yrði að greiða mismuninn til baka í september. „Það er óyfirstíganlegt. Það er heimsfaraldur sem hefur stöðvað hjól atvinnulífsins um allan heim. Við þær aðstæður þurfa öll fyrirtæki að bera byrðarnar til skemmri tíma. Það er ekki hægt að taka eitthvert eitt fyrirtæki út fyrir sviga í þeim efnum. Við höfum talið sanngjarnt að veita okkar viðskiptavinum slaka.“

Hann tekur dæmi af rekstri veitingastaðar sem yrði að greiða nokkra mánaða leigu í haust. „Það eru ekki fleiri borð á veitingastaðnum í september en aðra mánuði. Reksturinn getur ekki staðið undir svo miklum kostnaði.“

Sóknarfæri

Tómas Hilmar segir að það séu mikil tækifæri í rekstri skrifstofukjarna eftir að kórónaveiran umbylti vinnuháttum fólks. Margir kjósa fremur að vinna heima eða í grennd við heimilið. Fyrirtæki hafi komist að raun um að þau þurfi ekki jafn mikið skrifstofurými og áður. „Það er því aukin eftirspurn eftir sveigjanlegu skrifstofurými og fyrirtæki munu minnka við sig skrifstofurými. Þetta skapar sóknarfæri fyrir okkur.“