Fyrir viku vísaði ég hér á þessum vettvangi til gagnrýni fyrrverandi forstjóra ríkisfyrirtækisins Íslandspósts sem sagði fyrrverandi formann stjórnar hafa sýnt lítinn áhuga á hagræðingu í rekstri – meginmáli hafi skipt að uppfylla pólitískar væntingar stjórnmálaflokkanna.

Fyrir ári síðan var líka greint frá því að fulltrúi stjórnarandstöðunnar í stjórn Íslandspóst hefði verið rekinn úr stjórninni fyrir það eitt að spyrja gagnrýnna spurninga. Umrætt ríkisfyrirtæki er eitt margra fyrirtækja í opinberri eigu sem starfa á samkeppnismarkaði.

Sum þessara ríkisfyrirtækja njóta stuðnings í formi lánsábyrgða sem ekki er alltaf færður til bókar og þá eru þess dæmi að fyrirtæki í opinberri eigu fái undanþágur frá lögum, til að mynda hvað varðar leyfi fyrir framkvæmdum og greiðslu skatta.

Íslendingar eru aðilar að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) en hún hefur gefið út leiðbeiningar um stjórnunarhætti fyrirtækja í ríkiseigu. Þar er lagt til að ríki og sveitarfélög semji fyrirtækjum sínum eigendastefnu og birti hana. Í leiðbeiningunum kemur meðal annars fram að rökstyðja þurfi hvers vegna tiltekinn rekstur eigi að vera í höndum hins opinbera og hvernig það þjóni hagsmunum samfélagsins en að áliti OECD þarf að yfirfara þetta mat reglulega.

Ekki er ósennilegt að úttekt á ríkisfyrirtækjum hér á landi leiddi í ljós að margvíslegur opinber rekstur væri betur kominn í höndum einkaaðila.

Ríkið umsvifamikið

Íslandspóstur er dæmi um ríkisfyrirtæki sem starfar að fullu á samkeppnismarkaði en einkaréttur á póstdreifingu hefur nú verið felldur úr gildi. Þegar hið opinbera keppir við einkafyrirtæki takmarkast eðlilega möguleikar til atvinnurekstrar á viðkomandi sviði. Þetta dregur úr hagsæld og rýrir samkeppni. Við blasir að einkaaðilar geta vel sinnt allri þeirri þjónustu sem Íslandspóstur veitir.

Annað ríkisfyrirtæki á samkeppnismarkaði er Fríhöfnin, ein umsvifamesta smásöluverslun landsins, sem nýtur toll- og skattleysis og er í beinni samkeppni við innlenda verslun. Með þessu fyrirkomulagi annast ríkisvaldið meðal annars stóran hluta sölu á ilmvötnum og snyrtivörum hérlendis. Þá mismunar ríkisvaldið borgurunum með smásölurekstri í flugstöðvum þar sem þeir hinir efnameiri eiga vitaskuld frekar kost á að ferðast mikið og geta því oftar keypt skattfrjálsan varning.

Launaskrið hjá hinu opinbera

Hér er að framan hefur eingöngu verið vikið að atvinnurekstri ríkisins en langstærstur hluti hins opinbera er fólginn í starfsemi sem strangt til tekið telst ekki til atvinnurekstrar. Og útgjöldin hækka ár frá ári. Frá því að kórónuveiran skall á heimsbyggðinni hafa laun hjá hinu opinbera hækkað hér á landi um 18% líkt og bent var í nýlegri álitsgerð Viðskiptaráðs.

Þetta er úr takti við framleiðniaukningu og skýr vísbending um að hið opinbera sé leiðandi í launaþróun hérlendis. Árið 2020 nam launakostnaður hins opinbera 16 prósentum af landsframleiðslu en meðaltal Evrópusambandsríkja er 11 prósent. Hið opinbera sogar til sín sífellt stærri hluta vinnuaflsins og í sumum greinum er ekki óvarlegt að tala um atgervisflótta frá einkafyrirtækjum til hins opinbera. Æ oftar heyrist á tali ungs menntafólks að það kjósi helst að starfa hjá hinu opinbera.

Lítið gert til að draga úr kostnaði

Glöggt er gests augað og rétt að leggja sérstaklega við hlustir þegar Efnahags- og framfarastofnunin bendir á það sem betur má fara í rekstri hins opinbera hér á landi. Hún hefur til dæmis ítrekað vikið að því í skýrslum sínum að ráðast þurfi í umbætur á almannatryggingakerfinu og er þá sérstaklega horft til kostnaðar vegna örorku en á árabilinu 2000 til 2015 jókst hlutfall opinberra útgjalda vegna sjúkdóma, örorku og fötlunar umtalsvert. Fór úr 4,5 prósentum í 6,6 prósent.

OECD hvetur íslensk stjórnvöld til að leggja áherslu á að styðja örorkuþega til aukinnar virkni á vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins hafa bent á að þessum tillögum hafi ekki verið sinnt. Þvert á móti sé að finna sérstakar hækkanir umfram almennt verðlag til málaflokksins í fjárlögum fyrir þetta ár.

Til örorkulífeyris er varið tæpum 54 milljörðum samkvæmt fjárlögum 2022 en ef litið er til ríkisreiknings 2020 nam sú upphæð 46 milljörðum en það er um það bil fimmtán prósenta hækkun á aðeins tveimur árum.

Óhófleg reglubyrði

En það er ekki einasta svo að umsvif hins opinbera fari hratt vaxandi. Hið sama gildir um regluverkið. Á árinu 2021 voru breytingareglugerðir 510 talsins en áratug fyrr voru þær 166. Það samsvarar 207 prósenta fjölgun. Þetta er skýr vísbending um að reglubyrði fari vaxandi sem vitaskuld íþyngir öllu athafnalífi landsmanna.

IMD viðskiptaháskólinn í Lausanne í Sviss rannsakar samkeppnishæfni ríkja og samkvæmt úttekt hans er Ísland eftirbátur hinna Norðurlandanna þegar kemur að því að skapa hagfellt umhverfi fyrir viðskiptalíf. Danmörk er í öðru sæti á listanum, Svíþjóð í fjórða, Noregur því áttunda og Finnland í tólfta. Ísland rekur aftur á móti lestina meðal grannþjóðanna og er í 21. sæti.

Þá eru þess ótal dæmi hér á landi að regluverk Evrópusambandsins sé innleitt með meira íþyngjandi hætti en þörf er á til að uppfylla skuldbindingar Íslands á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þannig nýta stjórnvöld ekki þær undanþágur sem í boði eru. Viðskiptaráð hefur í því sambandi bent á að Ísland hafi við innleiðingu á reglugerð ESB um persónuvernd ekki nýtt þær ívilnandi undanþágur sem heimilar voru og grannríkin nýttu sér.

Stöndum öðrum langt að baki

Efnahags- og framfarastofnunin kannar með reglulegu millibili hversu íþyngjandi regluverk aðildarríkjanna er í þjónustuviðskiptum. Ísland kemur verst út úr þeim samanburði en í næstu sætum – með minna íþyngjandi regluverk – eru Mexíkó, Tyrkland og Ísrael – ríki sem við berum okkur ekki gjarnan saman við. Samkvæmt þessum mælikvarða stöndum við langt að baki hinum Norðurlöndunum.

Margvíslegra aðgerða er þörf til að auka samkeppnishæfni landsins og bæta um leið skilyrði til verðmætasköpunar. Þungt regluverk bitnar verst á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem eðlilega geta síður starfað í flóknu regluumhverfi en þau hin stærri. Með einfaldara regluverki er líka dregið úr aðgangshindrunum á markaði og ýtt undir aukna samkeppni öllum almenningi til hagsbóta.

Til mikils að vinna

Ríkisstjórnin leggur áherslu á það í stjórnarsáttmála sínum að regluverk verði einfaldað. En þannig var líka komist að orði í stjórnarsáttmála sömu flokka sem settur var saman í árslok 2017. Síðan þá hefur lítið verið aðhafst í þessu efni og því erfitt að sjá fyrir sér að nokkur meiriháttar skref verði stigin í átt að einföldun regluverks á þessu kjörtímabili.

Það skortir einfaldlega pólitískan vilja enda illmögulegt að setja fram skýra pólitíska sýn hjá jafn ólíkum flokkum. Líkt og bent er á í pistlinum er regluverk verulega íþyngjandi hér á landi hvort heldur litið er til sögunnar eða horft til nágrannaríkja. Fátt er betur til þess fallið að bæta samkeppnisstöðu þjóðarbúsins og bæta um leið lífskjör en einföldun regluverks.