Reglur fyrir far­þega sem fljúga til landsins með Icelandair verða í sam­ræmi við út­færslu stjórn­valda á nýjum reglum sem voru kynntar í dag um landa­mærin um að allir sem til landsins koma þurfa að fram­vísa nei­­kvæðu PCR-prófi vegna CO­VID-smits

Birna Ósk Einars­dóttir, fram­kvæmda­stjóri sölu- og þjónustu­sviðs hjá Icelandair, segir í svari við fyrir­spurn Frétta­blaðsins að sambærilegar reglur gildi á mörgum af þeirra áfangastöðum.

„Þegar nýju reglurnar taka gildi á ís­lensku landa­mærunum á föstu­daginn, bætist Ís­land í ört stækkandi hóp landa sem gera slíka kröfu. Við erum þegar að fljúga til nokkurra á­fanga­staða sem erum með sam­bæri­legar reglur og í þeim til­fellum leggjum við á­herslu á hags­muni við­skipta­vinanna, bæði með því að tryggja eftir okkar bestu getu að þau hafi upp­lýsingar um þessar reglur með góðum fyrir­vara áður en haldið er í ferða­lagið og með því að fara yfir þær með þeim við inn­ritun og ganga úr skugga um að þau séu með öll nauð­syn­leg ferða­gögn,“ segir Birna Ósk.

Hún segir það í flestum löndum vera þannig að yfir­völd skyldi öll flug­fé­lög sem fljúgi til landsins til að fram­fylgja slíkum reglum og sekti þau ef þeim er ekki fylgt. Hún segir að um sé að ræða tals­verðar breytingar og að það muni taka tíma að út­færa þær.

„Það er aftur á móti mikil­vægt að taka það fram að þessar reglur gilda einungis til 30. apríl í að­draganda þess að nýjar landa­mæra­reglur taka gildi á Ís­landi 1. maí sem skapa nauð­syn­legan fyrir­sjáan­leika til fram­tíðar,“ bætir hún þó við.

Farþegar tekið vel í grímuskyldu

Spurð um grímu­skyldu um borð og hver hafi haft eftir­lit með því segir Birna Ósk að það hafi gengið mjög vel frá fyrsta degi, sem var 15. Júní hér á landi.

„Far­þegar okkar hafa sýnt þessu skilning og unnið með okkur í þessu eins öllu sem snýr að smit­vörnum um borð. Þá hefur þetta hefur verið al­menn regla hjá flug­fé­lögum um allan heim, svo þetta var þægi­legt í fram­kvæmd frá fyrsta degi, í sam­ræmi við reglur á flestum flug­völlum svo þetta er í eðli­legu sam­hengi við annað á ferða­lagi við­skipta­vina okkar,“ segir Birna Ósk að lokum.

Efast um að breytingar standist stjórnarskrá

Svan­dís Svavars­dóttir, heil­brigðis­ráð­herra, féllst að mestu á til­lögur Þór­ólfs Gunnars­­sonar sótt­varna­læknis. Sam­kvæmt þeim þurfa allir sem til landsins að fram­vísa nei­­kvæðu PCR-prófi vegna CO­VID-smits. Hún sagði á Al­þingi í dag að engum Ís­lendingum yrði vísað frá landi. Hæsta­réttar­lög­maður vakti at­hygli á því í dag að nýju reglurnar standist ekki stjórnar­skrá.