Hlutabréf Regins hafa hækkað um ríflega 1,7 prósent í verði það sem af er degi í Kauphöllinni, daginn eftir að fasteignafélagið birti uppgjör fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins.

Velta með hlutabréfin hafði numið um 270 milljónum króna við hádegi og var fjöldi viðskipta þá sex talsins.

Hagnaður Regins var 1.055 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðum ársins og dróst saman um 28 prósent frá sama fjórðungi árið áður, að því er fram kom í tilkynningu sem félagið sendi Kauphöllinni síðdegis í gær. Var rekstur félagsins þar sagður vera í samræmi við áætlanir.

Rekstrartekjur námu 2.397 milljónum króna á tímabilinu og þar af voru leigutekjur 2.251 milljón króna en þær jukust um 30 prósent frá fyrraári.

EBITDA fasteignafélagsins - afkoma fyrir afskriftir, matsbreytingu og söluhagnað - var jákvæð um 1.607 milljónir króna á fyrsta fjórðungi ársins og hækkaði um 37 prósent á milli ára.

Bókfært virði fjárfestingareigna félagsins var 133,5 milljarðar króna í lok marsmánaðar en matsbreyting á fyrsta ársfjórðungi nam 871 milljón króna.

Í afkomutilkynningu Regins er auk þess rakið að á næstu vikum muni verslunum á Hafnartorgi fjölga með opnun tískuverslananna Collections, sem mun meðal annars bjóða upp á úrval vara frá Polo Ralph Lauren, Hugo Boss, Sand og Emporio Armani, GK Reykjavíkur og COS. Frekari opnanir séu jafnframt fyrirhugaðar næstu mánuði og megi þar nefna Michelsen, Optical Studio og Joe & the Juice.

Þá segir í tilkynningunni að umbreytingaferli Smáralindar sé lokið og það með góðum árangri.

„Viðtökur viðskiptavina hafa verið jákvæðar, sterkar og sjáanlegar í aðsóknartölum. Hlutfall alþjóðlegra verslana og veitingastaða í Smáralind er mjög sterkt og hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum og er í dag um 50 prósent af verslunarfermetrum Smáralindar,“ segir í tilkynningu Regins.