Bandaríska viðskiptaráðuneytið hefur endanlega staðfest að 47.54 prósent innflutningstollar verði lagðir á ´íslenskan kísilmálm innfluttan til Bandaríkjanna. Sambærilegir tollar verða einnig lagðir á kísilmálm frá Bosníu.

Í sumar óskuðu tveir stærstu framleiðendur kísilmálms í Bandaríkjunum eftir því við viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna að innflutningstollar yrðu lagðir á kísilmálm frá Íslandi, Malasíu, Kasakstan og Bosníu.

Að sögn Ferroglobe og Mississippi Silicon, sem samanlagt stýra meira en helmingi allrar kísilmálmframleiðslu í Bandaríkjunum, njóta framleiðendur landanna fjögurra ósanngjarns samkeppnisforskots. Því er náð fram með því að selja kísilmálm á niðursettu verði í krafti niðurgreiðslna við framleiðslu (e. dumping). Var því haldið fram að innflutningsverð á málmi frá löndunum fjórum væri á bilinu 54-85 prósentum lægra en eðlilegt gæti talist.

Rúnar Sigurpálsson, framkvæmdastjóri PCC Bakka, segir að niðurstaðan nú sé ekki endanleg. Ráðuneytið muni gefa út endanlegan úrskurð í febrúar. Eftir það sé svo hægt að áfrýja einu sinni til viðbótar til annarrar stofnunar í Bandaríkjunum sem kallast International Trade Commission. Sú stofnun mun þá gera sína eigin rannsókn á málinu. "Okkar málflutningur snýr að því þessi litli útflutningur okkar til Bandaríkjanna sé markaðnum að skaðlausu," segir Rúnar.

„Ákvörðun viðskiptaráðuneytisins um að grípa til aðgerða gegn ósanngjörnum innflutningi á kísilmálmi frá Bosníu og Íslandi eru góðar fréttir fyrir okkar rekstur og iðnaðinn í heild sinni,“ er haft eftir Eddie Boardwine, stjórnanda hjá Missisippi Silicon. Einnig er haft eftir Marco Levi, forstjóra Ferroglobe að „framleiðendur á Íslandi og Bosníu hefðu skekkt samkeppnisstöðu og gert okkur erfitt að taka þátt í samkeppninni.“

Innflutningur á kísilmálmi frá Íslandi til Bandaríkjanna var um það bil 8.900 tonn á árunum 2017 til 2019, samkvæmt samantekt viðskiptaráðuneytisins bandaríska.

Tilkynnt var í september síðastliðnum að í kjölfar rannsóknar bandaríska ráðuneytisins yrðu tollarnir lagðir á íslenskan kísilmálm. Innflutningur á kísilmálmi frá Íslandi til Bandaríkjanna hafi verið um það bil 8.900 tonn á árunum 2017 til 2019.

Fréttin var uppfærð kl. 15.05.