Reebok Fitness braut lög þegar uppsagnarskilmálum var breytt einhliða í COVID-19 faraldrinum í vor. Neytendastofa komst að þessari niðurstöðu og hefur líkamsræktarstöðinni verið bannað að stunda slíka viðskiptahætti aftur.

Í ákvörðun Neytendastofu kemur fram að stofnuninni hafi borist fjöldi ábendinga og fyrirspurna frá neytendum varðandi rétt þeirra til að segja upp eða frysta áskrift sína að líkamsræktarstöðvum þegar þeim var lokað vegna COVID-19. Rúv greindi fyrst frá.

Í lok mars breytti Rebook Fitness notendaskilmálum sínum. Breytingarnar urðu til þess að talsvert erfiðara var að segja upp áskrift en áður. Breytingarnar voru gerðar þegar strangar samkomutakmarkanir voru í gangi og líkamsræktarstöðvar lokaðar.

Viðskiptavinir gátu ekki lengur sagt upp áskriftinni á netinu heldur þurftu að mæta á skrifstofu félagsins og fá aðstoð við það.

Neytendastofa komst að því að þessi skilmálabreyting hafi verið gerð einhliða og án tilkynningar. Neytendur hafi ekki getað gripið til ráðstafana ef þeir vildu ekki sætta sig við breytta skilmála auk þess þá hafi verið breytingin verið gerð þegar enginn gat nýtt sér þjónustu líkamsræktarstöðvarinnar. Stofnunin telur að viðskiptahættir Reebok Fitness hafi brotið í bága við góða viðskiptahætti og raskað verulega fjárhagslegum hagsmunum neytenda.