Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um 2,2 prósent í viðskiptum dagsins en hlutabréf allra félaga á aðallista Kauphallarinnar, að Heimavöllum undanskildum, lækkuðu í verði.

Mest var lækkunin á bréfum í Marel en þau féllu um tæplega þrjú prósent í verði í tæplega 800 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfanna stóð í 586 krónum á hlut við lokun markaða síðdegis í dag og hefur það lækkað um 9,6 prósent eftir að félagið sendi frá sér afkomuviðvörun síðasta föstudagskvöld.

Þá lækkuðu bréf í Icelandair Group um 2,6 prósent í 153 milljóna króna veltu. Fram hefur komið í fréttum að raskanir á flugi flugfélagsins í gær og í dag hafi haft áhrif á um það bil þrjú þúsund farþega en félagið hefur aflýst um fimmtíu brottförum í dag vegna veðurs.

Eik fasteignafélag lækkaði um 2,4 prósent í viðskiptum dagsins, Brim um 2,3 prósent og TM um 2,1 prósent.

Heimavellir voru eina félagið á aðallista Kauphallarinnar sem hækkuðu í verði í dag en hlutabréf í leigufélaginu fóru alls upp um 5,7 prósent í 62 milljóna króna viðskiptum.