Raunvextir Seðlabankans eru neikvæðir um 2,5 prósent miðað við meðaltal mismunandi mælikvarða á verðbólgu og verðbólguvæntingar til eins árs. Þeir hafa lækkað um 0,4 prósentur frá því í nóvember og um 3,1 prósentu frá sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í Peningamálum, riti Seðlabankans.

Fram kom í fréttum í morgun að Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hafi ákveðið að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum og verða þeir því áfram 0,75 prósent. Tólf mánaða verðbólga mældist 3,9 prósent í janúar.

Peningastefnunefnd ákvað í nóvember að lækka stýrivexti um 0,25 prósentur í 0,75. Hafa þeir því lækkað um samtals tvær prósentur frá því að COVID-19-farsóttin barst til landsins í lok febrúar 2020.

Samkvæmt könnun Seðlabankans í janúar síðastliðnum vænta svarendur þess að meginvextir bankans verði óbreyttir fram á annan fjórðung þessa árs þegar þeir vænta þess ýmist að vextir verði óbreyttir eða lækki og verði 0,5 prósent fram undir lok þriðja ársfjórðungs.

Þá vænta þeir þess að vextir bankans verði 0,75 prósent undir lok ársins og eitt prósent að tveimur árum liðnum.

Framvirkir vextir benda aftur á móti til þess að markaðsaðilar vænti ekki frekari lækkunar vaxta og að þeir taki að hækka á öðrum fjórðungi þessa árs.

Ávöxtunarkrafa tíu ára óverðtryggðra ríkisbréfa var 3,5 prósent rétt fyrir útgáfu þessara Peningamála og hefur hækkað um 0,7 prósentur frá því að farsóttin barst til landsins.

Hækkun ávöxtunarkröfu á löngum skuldabréfum ásamt lækkun skammtímavaxta veldur því að halli ávöxtunarferilsins hefur aukist nokkuð: vaxtamunur lengri og styttri ríkisbréfa er um þessar mundir 2,1 prósenta en var neikvæður um 0,4 prósentur á sama tíma í fyrra, segir í Peningamálum.