Eins og nú horfir er raunveruleg hætta á því að verðbólga fari af stað með tilheyrandi afleiðingum fyrir þjóðfélagið. Þar með yrði sögulegt tækifæri til vaxtalækkana að engu. Þetta kemur fram í ávarpi Örvars Kærnesteds, stjórnarformanns TM, í ársskýrslu tryggingafélagsins sem kom út í gær í tilefni af aðalfundi félagsins.

Örvar, sem fer með 1,9 prósenta hlut í TM í gegnum fjárfestingafélagið Riverside Capital, fjallar meðal annars um stöðuna á vinnumarkaði og segir ljóst að margt í íslensku samfélagi muni ráðast af þeim kjarasamningum sem gerðir verði þar. Ekki sé samstaða um það við samningsborðið að leggja megináherslu á stöðugleika og kaupmátt og eins og nú horfi sé raunveruleg hætta á að verðbólgan fari af stað.

„Þar með verður sögulegt tækifæri til vaxtalækkana að engu en það er öllum í hag og veruleg lífskjarabót að vextir á Íslandi lækki og verði eitthvað í námunda við það sem gerist í samanburðarlöndunum,“ segir Örvar.

Í ávarpinu nefnir Örvar einnig að því sé stundum haldið fram að ekki ríki samkeppni á íslenskum tryggingamarkaði. Veruleikinn sé hins vegar annar.

„Frá árinu 2013 þegar TM var skráð í Kauphöll hefur tjónakostnaður hækkað um 60 prósent á meðan iðgjöld hafa hækkað um 35 prósent. 

Í hörðu samkeppnisumhverfinu hefur verið ógjörningur að hækka öll iðgjöld til fulls samræmis við hærri tjónakostnað. Honum hefur verið mætt með betri og nákvæmari verðlagningu þar sem áhætta hvers og eins viðskiptavinar er metin auk annarra aðgerða sem styrkja félagið til framtíðar,“ segir í ávarpi Örvars.

Jafnframt kallar Örvar eftir því að stjórnvöld færi skattaumhverfi fjármálafyrirtækja til samræmis við það sem önnur fyrirtæki í landinu búi við. Þótt færa hafi mátt rök fyrir sérstakri skattlagningu banka í kjölfar hrunsins þá sé sá tími löngu liðinn. Engin efni standi til þess að viðhalda því fyrirkomulagi að skattleggja sumar atvinnugreinar langt umfram aðrar.