Landssamtök lífeyrissjóða áætla að lífeyrissjóðir landsmanna hafi skilað að meðaltali rúmlega níu prósenta raunávöxtun allra eigna sinna á árinu 2020. Raunávöxtun eigna sjóðanna árið 2019 var 11,8 prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Erlendar eignir lífeyrissjóða jukust talsvert á árinu 2020 sem annars vegar er rakið til hækkandi hlutabréfaverðs erlendis og hins vegar til veikingar krónunnar.

Erlendar eignir nema þriðjungi

Erlendar eignir voru í lok nóvember komnar í 34 prósent af heildareignum og hefur hlutfallið aldrei verið hærra.

Innlendar eignir skiluðu einnig ágætri ávöxtun þótt hækkanir þar væru minni.

„Þrátt fyrir að árið 2020 hafi á margan hátt verið óvenjulegt skiluðu lífeyrissjóðirnir því góðri ávöxtun og árangur að þessu leyti er vel yfir 3,5 prósenta ávöxtunarviðmiði þeirra. Þó er mikilvægt að hafa í huga að sjóðirnir eru langtímafjárfestar og því skiptir langtímaávöxtun mun meira máli fyrir lífeyrisréttindi en einstök fjárfestingarár,“ segir í tilkynningunni.

Mynd/Landssamband lífeyrissjóða

Ávöxtunartölur ársins 2020 eru áætlaðar, endanlegar tölur birtast þegar sjóðirnir skila ársreikningum sínum.

Stýrivaxtalækkanir Seðlabanka Íslands leiddu til breytinga á íbúðalánamarkaði og drógust verðtryggð íbúðalán sjóðanna nokkuð saman á árinu 2020.

Á vormánuðum 2020 ákváðu íslensk stjórnvöld að heimila sérstaka tímabundna útgreiðslu séreignarsparnaðar vegna COVID-19 og námu sérstakar útgreiðslur 24,5 milljörðum króna til 7. janúar 2021 að telja.

Áætlað er að til mars 2022 verði alls 28,3 milljarðar króna af séreignarsparnaði greiddir út vegna sérstakra COVID-ráðstafana stjórnvalda.