Lögin sem voru sett á síðasta ári til þess að girða fyrir uppkaup útlendinga á landi utan þéttbýlis, höfðu í för með sér auknar kröfur á erlenda ríkisborgara frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) er hyggjast kaupa fasteign hérlendis. Unnið er að því að breyta lögunum þannig að slakað verði á kröfunum, en mörgum finnst ekki gengið nógu langt í því að einfalda ferlið.

„Örðugt er að sjá hvaða hagsmuni íslensk þjóð hafi af því að mismuna einstaklingum við íbúðarkaup eftir þjóðerni eins og verið hefur,“ segir í umsögn lögmannsstofunnar LEX sem var skilað fyrir hönd Mikluborgar fasteignasölu.

„Þvert á móti verður að telja það í fullu samræmi við hagsmuni Íslendinga að hvetja til þess að einstaklingar, hverrar þjóðar sem þeir eru, kjósi að fjárfesta og dvelja á Íslandi í eigin íbúðarhúsnæði, hvort sem er í frítíma sínum eða til þess að taka hér þátt í atvinnulífi.“

Breytingar sem gerðar voru með lögunum stefndu að því að koma í veg fyrir að land safnaðist í miklum mæli á fárra hendur og var þá fyrst og fremst haft í huga land utan þéttbýlis. Í lögunum, sem stundum eru kölluð Ratcliffe-lögin í daglegu tali, með vísun til jarðakaupa auðkýfingsins Jims Ratcliffe hér á landi, er kveðið á um að erlendir ríkisborgarar utan EES þurfi að sýna fram á „sterk tengsl við Ísland, svo sem vegna hjúskapar við íslenskan ríkisborgara“, hyggist þeir kaupa fasteign.

Kröfur um „sterk tengsl við Ísland“ hafa meðal annars komið sér illa fyrir þá sem hafa staðið að uppbyggingu á íbúðarhúsnæði, einkum lúxusíbúðum, og hafa í hyggju að markaðssetja þær til efnameiri Breta, Bandaríkjamanna og Asíubúa.

Með fyrirliggjandi frumvarpi er lagt til að slakað verði á þeim kröfum að hluta til, þannig að ef erlendir ríkisborgarar frá ríkjum utan EES vilja festa kaup á fasteign hérlendis þurfi þeir ekki að hafa sterk tengsl við landið, í þeim tilfellum þegar fasteign er skráð íbúðarhúsnæði á leigulóð í þéttbýli eða frístundahús á leigulóð á skipulögðu frístundasvæði. Þeir þurfi eftir sem áður að leita undanþágu hjá ráðherra.

Það sem af er ári hefur ráðuneytið samþykkt fjórar umsóknir um leyfi til að eiga íbúðarhúsnæði í þéttbýli hér á landi á grundvelli sterkra tengsla við landið. Í fyrra voru leyfi vegna kaupa á íbúðarhúsnæði í þéttbýli átta og árið 2019 voru leyfi vegna kaupa á íbúðarhúsnæði í þéttbýli ellefu.

Þjónar ekki markmiðinu

Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands telja umrædda tilslökun vera til bóta en telja mikilvægt að gengið sé lengra, enda eru núverandi takmarkanir víðtækari en nauðsynlegt er til að ná því markmiði sem löggjafinn stefndi að. Leita eigi leiða til að einfalda og skýra ferli við veitingu undanþága frá skilyrðum laganna.

„Það markmið er að stuðla að fjölbreyttum og samkeppnishæfum landbúnaði, náttúruvernd, viðhaldi og þróun byggðar og þjóðfélagslega gagnlegri og sjálfbærri landnýtingu,“ segir í umsögn samtakanna. Þau telja að takmarkanir á eignarrétti eða afnotum á fasteignum hérlendis eigi ekki að eiga við um frístundahúsnæði eða þéttbýlissvæði í ljósi þessa markmiðs.

„Að mati samtakanna er í öllu falli óljóst hvernig takmarkanirnar á þessum svæðum eigi að tryggja samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar.“

„Þannig væri eðlilegt að það sama gilti um íbúa utan og innan EES-svæðisins hvað varðar kaup fasteigna á þessum svæðum, sé stefnt að ofangreindum markmiðum. Að mati samtakanna er í öllu falli óljóst hvernig takmarkanirnar á þessum svæðum eigi að tryggja samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar.“

Þá bendir LEX á að ríkissjóður beri kostnað af því að yfirfara umsóknir og gerð umsókna leiði til kostnaðar fyrir umsækjendur. „Þar að auki verður kaupandi eignar að setja fyrirvara í kaupsamning um að leyfi ráðherra fáist, en í því felst óhagræði og óvissa fyrir bæði kaupanda og seljanda eignar. […] kann að vera unnt að ná markmiðum frumvarpsins með minni fyrirhöfn og kostnaði.“

Nýju lögin mynda hindrun

Lögmannsstofan KMPG Law bendir á að Bandaríkjamenn og Bretar hafi sýnt Íslandi mikinn áhuga – um 40 prósent ferðamanna á Íslandi á árunum 2016 til 2020 komu frá þessum tveimur löndum – og setur það í samhengi við markmið stjórnvalda um að fjölga erlendum sérfræðingum hér á landi.

„Á sama tíma og ferðaþjónustan stendur frammi fyrir áskorunum vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins og ríkisstjórnin reynir að gera Ísland að fýsilegri kosti fyrir erlendra sérfræðinga skýtur skökku við að sníða sömu aðilum svo þröngan stakk í að setjast hér að,“ segir í umsögn lögmannsstofunnar.

Samandregið telur KPMG að fyrirhugaðar breytingar feli enn í sér of umfangsmiklar takmarkanir á rétti útlendinga frá ríkjum utan EES til að eignast fasteignir á Íslandi. Þá feli frumvarpið í sér verulega þrengingu á réttindum tiltekinna lögaðila innan EES varðandi fasteignakaup, sem „verulegum vafa er undirorpið að standist þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands.“