Rekstur RARIK samstæðunnar gekk ágætlega á árinu 2021. Ekki var eins mikið um tjón á dreifikerfinu vegna veðurs og verið hafði tvö árin þar á undan og flæði raforku um dreifikerfi samstæðunnar jókst frá fyrra ári. Hins vegar minnkað orkusala dótturfélagsins Orkusölunnar vegna vaxandi samkeppni og minni eigin framleiðslu.

Þetta er meðal þess sem fram kom á aðalfundi RARIK sem haldin var í dag. Á fundinum gerði Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri grein fyrir sínum síðasta ársreikningi hjá RARIK, en hann lætur senn af störfum eftir rúm 18 ár sem forstjóri en alls hefur hann starfað hjá RARIK í tæp 42 ár. Í gær var greint frá því að Magnús Þór Ásmundsson, rafmagnsverkfræðingur og fyrrum forstjóri Alcoa Fjarðaáls hefur verið ráðinn í starf forstjóra RARIK ohf. og tekur hann við starfinu frá 1. maí næstkomandi.

Fjárfest fyrir 4,3 milljarða

Heildarfjárfesting RARIK árið 2021 í endurnýjun og aukningu stofn- og dreifikerfisins nam 4,3 milljörðum sem er svipað og árið á undan. Þar af var kostnaður við að endurnýja loftlínukerfi í dreifbýli með jarðstrengjum og jarðspennistöðvum um 1,7 milljarður og kostnaður við nýjar heimtaugar og til að mæta auknu álagi rúmar 800 milljónir.

Fjárfestingar í dreifikerfi raforku voru minni en árið áður, en meiri en í langtímaáætlunum vegna flýtiverkefna sem studd eru af stjórnvöldum. Fjárfestingar í stofnkerfi voru minni en gert var ráð fyrir í áætlunum vegna tafa við leyfisveitingar og afgreiðslu á erlendu efni. Fjárfest var í hitaveitum í samræmi við áætlanir

Afkoma RARIK fyrir fjármagnsliði var betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, en fjármagnsliðir hærri. Rekstrarhagnaður ársins 2021 var 2,1 milljarðar sem er tæp 13% prósent af veltu ársins. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var um 34 prósent sem hlutfall af veltu, eða 5,6 milljarðar. Sóttvarnaraðgerðir vegna Covid-19 höfðu talsverð áhrif á skipulag vinnu en fjárhaglegu áhrifin voru ekki mikil.

Heildareignir RARIK í lok árs 2021 námu tæpum 83,5 milljörðum og jukust um rúma 4,6 milljarða milli ára. Heildarskuldir námu 29,8 milljörðum og hækkuðu um tæpar 700 milljónir frá fyrra ári. Eigið fé var rúmir 53,6 milljarðar og eiginfjárhlutfall 64,3 prósent samanborið við 63,1 prósent í árslok 2020.

362 km af jarðstrengjum lagðir

Alls voru lagðir 362 km af jarðstrengjum á árinu og voru það að stærstum hluta verkefni sem voru á áætlun um endurnýjun dreifikerfisins, en um 100 km voru vegna verkefna sem stjórnvöld ákváðu að veita fjármagni í til að styrkja brothættar byggðir og til að flýta þrífösun til mjólkurbænda og stærri notanda.

Áætlað er að endurnýjun dreifikerfisins sem unnið hefur verið markvisst að undanfarin ár með því að færa loftlínur í jarðstrengi ljúki árið 2035. Um síðustu áramót voru liðlega 72 prósent dreifikerfisins komin í jörð en samanlögð lengd þess er um 9.500 km. Með því að færa dreifikerfið úr loftlínum í jarðstrengi hefur truflunum vegna náttúruafla fækkað mikið og á árinu 2021 urðu 53 slíkar truflanir í dreifikerfinu sem er um helmingi færri truflanir en í meðalári.

Lagningu dreifikerfis jarðhitaveitu í Hornafirði lokið

Jarðhitaveita í Hornafirði sem tekin í notkun í árslok 2020 leysti af hólmi fjarvarmaveitu á Höfn sem þar hafði verið rekin frá árinu 1980. Á árinu 2021 var lokið við lagningu dreifikerfis í þann hluta bæjarins sem áður var með beina rafhitun og stendur nú öllum íbúum á Höfn til boða að tengjast hitaveitunni

Konur með hærri grunnlaun en karlar meiri tekjur

Á árinu hlaut RARIK jafnlaunavottun í fyrsta sinn eftir mikla vinnu við gerð verklagsreglna, ferla og framkvæmd launagreiningar. Launagreiningin leiddi í ljós að grunnlaun kvenna hjá RARIK eru ögn hærri en karla. Aftur á móti voru heildarlaun karla töluvert hærri en kvenna sem skýrist af því að starfsmenn vinnuflokka fyrirtækisins vinna töluverða yfirvinnu, auk þess að sinna bakvöktum utan hefðbundins vinnutíma, en vinnuflokkarnir eru nær eingöngu skipaðir körlum. Áfram verður unnið við jafnlaunavottun og launagreiningu þannig að það markmið náist að greidd verði sömu laun fyrir jafn verðmæt störf.

Aðgerðaáætlun í loftlagsmálum

Í samræmi við stefnu fyrirtækisins samþykktu stjórn og framkvæmdaráð RARIK ohf. aðgerðaáætlun RARIK í loftlagsmálum á árinu 2021, ásamt losunarmarkmiðum til ársins 2030. Aðgerðaáætlunin og markmið RARIK í loftslagsmálum styðja 13. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í loftslagsmálum.

310 milljónir í arð til ríkisins

Á fundinum var samþykkt að greiða 310 milljónir króna í arð til Ríkissjóðs Íslands sem er eigandi RARIK vegna ársins 2020. Á fundinum var stjórn félagsins kjörinn en hana skipa: Arndís Soffía Sigurðardóttir, Álfheiður Eymarsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Thomas Möller og Valgerður Gunnarsdóttir.