Fata­verslunin Galleri Sau­tján stendur nú fyrir leik á sam­fé­lags­miðlinum Insta­gram þar sem vinnings­hafi hlýtur árs­birgðir af fatnaði í formi 25 þúsund króna inn­eignar í versluninni á mánuði.

Rakel Garðars­dóttir, for­svars­maður sam­takanna Vakandi og stofnandi snyrti­vöru­merkisins Verandi, segir leikinn skjóta skökku við þá um­ræðu sem hefur verið í gangi um fata­sóun.

„Það er náttúru­lega verið að ýta undir þessa neyslu og ýta undir það að þú þurfir að kaupa þér föt fyrir 25 þúsund kall á mánuði en þetta setur líka bara pressu á ungt fólk myndi ég halda,“ segir Rakel í sam­tali við Frétta­blaðið. Hún bætir við að það yrði frá­bært ef vinnings­hafinn væri ein­hver sem lifir í fá­tækt en segist efast um að það verði til­fellið.

Frekar átt að gefa árs­birgðir af við­gerðum

„Þetta er í rauninni bara falin markaðs­setning sem ýtir undir neyslu, þó þau meini örugg­lega vel með þessu,“ segir Rakel og leggur fram til­lögu að nýjum leik; „þau hefðu frekar átt að gefa bara árs­birgðir af inn­eign í við­gerðir og breytingar! Það yrði bara flottara.“

Mikil um­ræða hefur verið í gangi um hver um­hverfis­á­hrif neyslu sam­fé­lagsins séu, hvort sem það er um mat, fatnað eða ferða­lög. Frétta­blaðið ræddi við Rakel í sumar um fyrir­tækið Verandi sem fram­leiðir húð- og hár­vörur úr endur­nýttum hrá­efnum en hún hefur einnig barist fyrir aukinni vitundar­vakningu um matar­sóun á Ís­landi í gegnum sam­tökin Vakandi.