Ragnar Þór Ingólfs­son, for­maður VR, er von­svikinn með á­kvörðun stjórnar LIVE um að þrengja lána­skil­yrði til þess að draga úr út­lána­vexti. Ekki hafi verið lagt upp með slíkt þegar skipt var um fólk í stjórninni. Hann segist þó bera fullt trausts til síns fólks í stjórn líf­eyris­sjóðsins og segir breytingar taka tíma.

Frétta­blaðið greindi frá á­kvörðuninni fyrr í dag en mikinn styr stóð meðal annars um stjórn líf­eyris­sjóðsins í sumar þegar trúnaðar­ráð VR á­kvað að aftur­kalla um­boð stjórnar­manna fé­lagsins. Líkti þing­maður Ragnari meðal annars við svo­kallaðan „skugga­stjórnanda í kjöl­farið.“

Í frétt á vef Líf­eyris­sjóðsins í dag kom meðal annars fram að sjóðurinn teldi að á­fram­haldandi vöxtur leiði að ó­breyttu til ó­jafn­vægis í á­hættu­dreifingu sjóðsins og því ó­hjá­kvæmi­legt að stjórn bregðist við því.

Breytingarnar fela eftir­farandi í sér að láns­réttur miðist við virka sjóðs­fé­laga eða þá sem hafa greitt ið­gjald til sjóðsins í 6 mánuði af síðustu 12 mánuðum. Einnig eiga láns­rétt þeir sem greitt hafa til sjóðsins í sam­tals 36 mánuði. Há­marks­fjár­hæð láns verður 40 miljónir króna og verð­tryggð lán með breyti­legum vöxtum verða ekki í boði fyrir nýja lán­þega. Þá lækka fastir vextir verð­tryggðra lána lækka úr 3,40 prósentum í 3,20 prósent en vextir af ó­verð­tryggðum lánum verða ó­breyttir 5,14 prósentum.

Þurfi að fara í gagn­gera endur­skoðun á lána­stefnu og vaxta­stefnu

„Við erum ekki ein sem komum að þessum sjóði, það eru líka at­vinnu­rek­endur. Það er alveg ljóst að það þarf að fara í gagn­gera endur­skoðun á bæði lána­stefnu og vaxta­stefnu líf­eyris­sjóðanna í heild sinni,“ segir Ragnar.

„Það virðist vera svona á­kveðið stefnu­leysi og sér­stak­lega í ljósi þess að það þarf að fara að finna ein­hverjar leiðir til að búa til að­ferðir eða ein­hvers­konar fyrir­komu­lag þar sem bæði þjóð­fé­lagið og al­menningur nýtur raun­veru­legra markaðs­vaxta á lána­markaði.“

Ekki búinn að kasta inn hand­klæðinu og treystir stjórninni enn

Þetta hljóta að vera von­brigði?

„Jú ég skal alveg viður­kenna það að þetta eru von­brigði að við náum ekki meiri og hraðari árangri í þeirri veg­ferð sem við erum. Ekki bara í LIVE eða líf­eyris­sjóðunum heldur fjármala­kerfinu öllu,“ segir Ragnar.

„En það þarf að verða ein­hver kerfis­breyting, það er alveg á hreinu. Sér­stak­lega í ljósi þess að við á­kváðum að fara í þessa veg­ferð sem við fórum í þegar líf­eyris­sjóðurinn hækkaði vexti á einum lána­flokki þegar við bjuggumst við lækkun.

Það var til dæmis kveikjan að því að við á­kváðum að gera breytingar.
Auð­vitað myndi ég vilja sjá þessar breytingar koma til fram­kvæmda með meira á­berandi hætti heldur en niður­staða fundarins í gær varð. En ég stjórna náttúru­lega ekki á­kvörðunum sjóðsins og við ekki ein­ráð með það hvernig þetta þróast.“

Horfa til Skandinavíu

„Það sem þarf að gera, og við höfum í sjálfu sér hafið þá vinnu í VR, er að teikna upp ein­hvers­konar til­lögur sem miða að því hvernig Líf­eyris­sjóðir geta tryggt í sjálfu sér bestu kjör á markaði og líka hafa allt á­kvörðunar­ferlið gagn­særra. Það tekur reyndar að­eins meiri tíma en ég hafði vonast til. En það er alveg við­búið að Líf­eyris­sjóðirnir þurfi kannski að skoða styttingu á láns­tíma sam­hliða því að vextirnir lækki meira.

Þetta er ekkert ein­falt en eins og ég segi þá höfum við verið að skoða leiðir, við höfum verið að horfa til Skandinavíu hvað varðar lána­kjör. Þar eru al­menningi boðin bestu kjör hverju sinni og þá eru Líf­eyris­sjóðirnir ekki beinir lán­veit­endur, heldur gera.“

„Ég á von á því að við munum á ein­hverjum tíma­punkti ná fram ein­hverjum breytingum. Von­brigðin eru vissu­lega til staðar en þetta tekur að­eins lengri tíma en ég vonaðist til. Það er alveg ljóst að ef við ætlum að ná fram ein­hverjum breytingum verða að verða breytingar á þessu lána­fyrir­komu­lagi. Þetta er mikil á­skorun og flókin á­skorun.“

„Maður kastar ekki inn hand­klæðinu í fyrstu at­rennu. Við erum með helming stjórnar­sæta á móti at­vinnu­rek­endum. Ég ber enn þá fullt traust til þeirrar stjórnar sem er ný­tekin við. Þetta er bráða­birgðar­stjórn og við erum að vinna núna að því að loka ferlinu með lang­tíma­kjör stjórnar­manna í þessum mánuði. Ég á svo sem ekki von á ein­hverjum stefnu­breytingum.“