Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, vill að stjórnvöld lækki eða afnemi virðisaukaskatt á nauðsynjavöru og lækka olíugjald tímabundið til að bregðast við verðlagshækkunum. Ragnar Þór segir í grein sem hann skrifar á vef Vísis að allt að fjórðungshækkun á verðlagi blasi við eftir áramót.

„Þessar miklu hækkanir sem hrúgast yfir samfélagið eru að langmestu leiti vegna erlendra hækkana sem skýrast að mestu á hærri framleiðslukostnaði, vegna hækkun hrávöruverðs, orku og umbúða. Það blasir við að aðgerða er þörf ef ekki á illa að fara,“ segir Ragnar Þór í greininni.

„Það blasir við að verð á nauðsynjavörum, sem hefur hækkað mikið, mun hækka enn meira og mun leggjast að fullum þunga á verðlag og vísitölu á næsta ári.“

Tímabundnar aðgerðir

Ragnar Þór segir að margt bendi til að ástandið verði tímabundið en muni hafa hrikalegar afleiðingar ef ekkert verði gert. „Við þurfum að lækka eða afnema virðisaukaskatt á nauðsynjavöru og lækka olíugjald, tímabundið,“ segir hann.

„Tímabundnar aðgerðir til að bregðast við því fyrirsjáanlega. Að öðrum kosti verður verkalýðshreyfingin nauðbeygð til að sækja hverja einustu krónu sem tapast af ráðstöfunartekjum félagsmanna okkar í næstu kjarasamningum.“