Sannkallað rafmagnshlaupahjólaæði hefur gripið Íslendinga og seldust upp öll rafmagnshjól hjá raftækjaversluninni ELKO fyrir nokkru.

„Við ráðum ekki við það. Það selst allt upp á milli sendinga,“ segir Bragi Þór Antoníusson markaðsstjóri ELKO í samtali við Fréttablaðið og bætir við að nýjar sendingar af hjólum séu komnar í verslanir. ELKO kaupir til landsins öll þau hjól sem þau komast yfir og seljast þau alltaf upp.

Mörg hundrað prósenta aukning

Aðspurður segist Bragi ekki hafa búist við æðinu og hafi orðið mörg hundruð prósenta aukning á innflutningi rafmagnshlaupahjóla á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni nam heildarkaupverðið á innfluttum hjólum og hlaupahjólum 117,5 milljónum króna árið 2017 en var komið upp í 225 milljónir árið 2018 og er búist að að talan verði talsvert hærri í ár.

„Þetta kemur á óvart. Við vorum að skoða þessi tæki í fyrra en þá var ekki mikill hiti fyrir þessu. Svo ákváðum við að taka inn smá sendingu snemma í vor. Þegar það rauk út þá sáum við í hvað stefndi,“ segir Bragi.

Hjól til leigu á leið til landsins

Rafmagnshlaupahjól, eða scooters, eru vinsæl um alla Evrópu og í borgum í Bandaríkjunum. Fyrirtæki á borð við Voi Scooters og Tier bjóða upp á hlaupahjólaleigur í tugum borga á Norðurlöndum og Vestur-Evrópu. Hægt er að nota smáforrit í snjallsímum til að leigja hjólin.

Fréttablaðið greindi frá því fyrr á árinu að hægt verði að leigja rafmagnshlaupahjól með litlum fyrirvara í höfuðborginni í lok sumars. Fyrstu hundrað stykkin koma til landsins sennilega í ágúst að sögn forsvarsmanna Hopp.