SoftBank hyggst ráða bankana Goldman Sachs, Nomura og Deutsche Bank sem ráðgjafa í fyrirhuguðu hlutafjárútboði símafyrirtækis samsteypunnar í Japan. Þetta herma heimildir Financial Times.

Hlutabréfaskráning fyrirtækisins gæti orðið stærsta skráning sögunnar að mati greinenda.

Samkvæmt heimildum Financial Times hyggst SoftBank, sem stofnandinn Masayoshi Son stýrir, selja hlutabréf í japanska símafyrirtækinu fyrir á bilinu 20 til 25 milljarða dala eða sem jafngildir 2.320 til 2.900 milljónum króna. Er gert ráð fyrir að útboðið verði haldið í desember en stefnt er að því að selja meirihluta bréfanna til japanskra fjárfesta.

Til samanburðar aflaði kínverski netrisinn Alibaba 25 milljarða dala í hlutafjárútboði í New York haustið 2014.

Markaðsvirði SoftBank er ríflega 85 milljarðar dala en samsteypan á meðal annars 27 prósenta hlut í kínverska netrisanum Alibaba og 43 prósenta hlut í Yahoo í Japan. Þá stýrir SoftBank auk þess fjarskiptafélögunum SoftBank Mobile og Sprint og fer auk þess með hlut í fjölmörgum tækni- og fjarskiptafélögum til viðbótar.

Búist er við því að SoftBank eigi eftir að ráða í það minnsta fjóra japanska banka til viðbótar til þess að veita félaginu ráðgjöf við skráninguna.  

Sumir greinendur hafa bent á að ýmis tækifæri séu fyrir japönsku samsteypuna til þess að auka virði sitt, hluthöfum til hagsbóta, en vísbendingar eru um að félagið sé talsvert undirverðlagt á hlutabréfamarkaði. Tækifærin eru meðal annars sögð felast í skráningu símafyrirtækis SoftBank í Japan á hlutabréfamarkað, sölu á Sprint til bandaríska keppinautarins T-Mobile, kaupum á eigin bréfum og uppskiptingu á hlut SoftBank í Alibaba.