Lilja Alfreðsdóttir menningar- og við­skipta­ráð­herra fundaði með full­trúum OECD á sviði ný­sköpunar, lítilla og meðal­stórra fyrir­tækja, land­svæða og borga, en sviðið fer með mál­efni ferða­þjónustu og menningar­geirans.

Efna­hags- og fram­fara­stofnunin er al­þjóða­stofnun 38 þróaðra ríkja sem að­hyllast full­trúa­lýð­ræði og markaðs­hag­kerfi. Ís­land hefur verið stofn­aðili að stofnunni allar götur síðan 1961 þegar henni var komið á fót.

Lilja ræddi meðal annars vinnu við að­gerða­á­ætlun í ferða­þjónustu á Ís­landi sem unnið er að á vett­vangi menningar- og við­skipta­ráðu­neytisins og stefnu­mótun í hinum ýmsu menningar­greinum. Sér­stak­lega var rætt um stöðu og horfur í al­þjóð­legri ferða­þjónustu og sam­keppnis­hæfni ferða­þjónustu með til­lit til gjald­töku í greininni og sjálf­bærni.

"Ferða­þjónustan er sú at­vinnu­grein sem skilar mestum gjald­eyris­tekjum fyrir þjóðar­búið. Í yfir­standandi vinnu við að­gerða­á­ætlun í greininni er mikil­vægt að huga í hví­vetna að sam­keppnis­hæfni ís­lenskrar ferða­þjónustu og tryggja að Ís­land verði á­fram eftir­sóknar­verður á­fanga­staður fyrir ferða­menn. Í því ljósi höfum við meðal annars verið að hrinda í fram­kvæmd til­lögum úr sam­keppnis­mati OECD á ís­lenskri ferða­þjónustu og ryðja þannig úr vegi sam­keppnis­hindrunum í greininni" segir Lilja Al­freðs­dóttir menningar- og við­skipta­ráð­herra.