Breyttar hugmyndir um hlutverk fyrirtækja endurspeglast meðal annars í atvinnuviðtölum. Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania, segir að ungt fólk sem kemur í atvinnuviðtöl til Advania spyrji oft hvað fyrirtækið sé að gera í umhverfismálum og hver stefnan sé í samfélagsmálum almennt.

„Þetta er oft með því fyrsta sem er rætt í viðtölunum. Það var ekki þannig fyrir fimm árum,“ segir Ægir Már í umfjöllun Markaðarins um aukningu í því að íslensk fyrirtæki taki afstöðu til samfélagsmála. Gunnar Sveinn Magnússon, sérfræðingur í sjálfbærri þróun hjá Íslandsbanka, talar á svipuðum nótum.

„Við finnum alveg fyrir því að þessi mál skipta máli hjá fólki sem er að sækja um vinnu hjá bankanum. Sumar hafa hrifist af áherslum bankans á jafnréttismálin á meðan aðrir eru til dæmis að velta fyrir sér hvernig bankinn stendur sig í umhverfismálum. Víða erlendis hefur verið lögð áhersla á mikilvægi þess að starfsfólk trúi á stefnu fyrirtækisins með tilliti til sjálfbærni og ég held að sú hugsun sé að koma meira hingað til landsins. Fyrirtæki þurfa að vera með þessi mál á hreinu til að ná í og halda í gott starfsfólk,“ segir Gunnar Sveinn.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir varhugavert að blanda starfsmönnum í póli­tíska stefnu stjórnenda. „Ef starfsmaður vinnur vinnuna sína vel og kemur vel fram við viðskiptavini þá á hann ekki að þurfa að taka að sér það hlutverk að reka pólitíska stefnu gagnvart viðskiptavinum.“