Í haust mun verður ráð­stefnan Vegan heilsa haldin í Hörpu. Á henni munu sér­fræðingar fjalla um á­hrif vegan matar­æðis á heilsu fólks.

„Við á­kváðum að setja á lag­girnar ráð­stefnu þar sem fjallað er um hvernig vegan matar­æði getur haft já­kvæð á­hrif á heilsu fólks. Ég sjálf hef góða reynslu af breyttu matar­æði og verð með erindi á ráð­stefnunni“, segir Elín Skúla­dóttir einn af að­stand­endum ráð­stefnunnar, í til­kynningu.

Þau sem verða með erindi á ráð­stefnunni eru banda­ríski næringar­fræðingurinn Brenda Davis sem hefur verið leiðandi í næringar­fræði græn­kera og breski blóð­sjúk­dóma­læknirinn Shireen Kassam sem hefur lagt á­herslu á plöntu­miðað matar­æði sem for­vörn krabba­meina og til að ná heilsu eftir krabba­meins­með­ferðir.

Þá mun skurð­læknirinn Caldwell Essel­styn, sem hefur birt yfir 150 vísinda­greinar, fjalla um á­hrif matar­æðis á hjarta­sjúk­dóma. Á­samt þeim verður Ann Essel­styn mat­gæðingur og vegan frömuður með erindi.

Einnig munu þau Elín Skúla­dóttir og í­þrótta­maðurinn Berg­sveinn Ólafs­son segja frá reynslu sinni að hafa skipt yfir í hreint vegan matar­æði.

„Ráð­stefnan er ekki bara ætluð fólki sem að­hyllist vegan matar­æði heldur líka fyrir alla þá sem láta sig heilsu varða og hafa á­huga á að skoða mis­munandi þætti sem hafa á­hrif á heilsuna,“ segi­e Elín.

Elín skipu­leggur ráð­stefnuna í sam­starfi við Ingi­björgu Elísa­betu Garðars­dóttur. Þær segja að þær haldi verðinu í al­geru lág­marki, en á ráð­stefnuna kostar 9.990 krónur. Allur á­góði af ráð­stefnunni mun renna til Ljóssins sem er endur­hæfingar- og stuðnings­mið­stöðvar fyrir fólk sem hefur fengið krabba­mein og að­stand­endur þess.

Ráð­stefnan verður í Silfur­bergi, 16. októ­ber frá klukkan 12 og er hægt að kaupa miða hér.