Raðir mynduðust nú síðdegis fyrir utan verslanir ÁTVR á höfuðborgarsvæðinu á meðan viðskiptavinir biðu þess að geta komist inn í verslanir á háannatíma í miðju samkomubanni. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mynduðust meðal annars raðir í verslun vínbúðarinnar að Helluhrauni í Hafnarfirði, verslun vínbúðarinnar í Skeifunni og á Austurstræti í miðbæ Reykjavíkur.
Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að salan hafi verið sérstaklega mikil síðustu tvær vikur. Spurð um hvort fleiri séu að kaupa sér vín á virkum dögum þessa dagana segir hún dreifinguna á sölunni aðeins jafnari en áður.
ÁTVR hefur á síðustu vikum hvatt fólk til þess að mæta í Vínbúðina utan annatíma til að dreifa álagi. Að sögn Sigrúnar hefur það gengið ágætlega.
Spurð um hvernig það gengur að fá fólk til að halda fjarlægðir inn í búðunum segir hún það fara batnandi. „Ég hef ekki tekið stöðuna nýlega en ég held þetta sé að koma. Það voru allir að æfa sig til að byrja með og maður fylgist með því þegar maður fer í búð og svona. Ég sá mynd frá vínbúð á laugardaginn og þá voru viðskiptavinir vakandi og stóðu í röð með millibili. Þetta hefur gengið mjög vel. Það kemur hins vegar fyrir að við þurfum að takmarka inn í stærstu búðunum.“


