Mikil ólga hefur ríkt meðal starfs­manna Vinnu­eftir­litsins undan­farin misseri. Starfs­andi er lé­legur og mikill sam­skipta­vandi milli stjórn­enda og al­mennra starfs­manna.

Starfs­manna­velta hefur verið mikil á árinu og eins og greint var frá í helgar­blaði Frétta­blaðsins leiddi ný­leg könnun meðal starfs­manna í ljós að fjórði hver starfs­maður taldi sig hafa orðið fyrir ein­elti á vinnu­staðnum.

Hanna Sig­ríður Gunn­steins­dóttir, sem tók við for­stjóra­stöðu stofnunarinnar fyrir tæpu ári, sagði að niður­stöður könnunarinnar væru litnar mjög al­var­legum augum og að fyrir­tækið hefði gripið til ýmissa að­gerða til þess að laga á­standið.

Meðal annars var út­búin ný við­bragðs­á­ætlun þegar starfs­menn til­kynntu um mögu­leg ein­eltistil­vik og gerður var samningur við sál­fræði­stofu sem starfs­menn geta leitað til. Þá var skipu­lögð sér­stök sam­skipta­stofa til þess að bæta sam­skipti innan stofnunarinnar og nýrri mann­auðs­á­ætlun ýtt úr vör.

Vinnu­eftir­litið hefur keypt þjónustu frá ráð­gjafar­fyrir­tækinu Attentus varðandi mann­auðs­mál stofnunarinnar. Einn eig­enda Attentus sinnti verk­efninu í byrjun árs en var gert að hverfa frá störfum fyrir meintan dóna­skap í garð starfs­manna.

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins nefndi trúnaðar­maður við nefndan full­trúa Attentus að margir starfs­menn vinnu­véla­deildar stofnunarinnar í­huguðu að hætta störfum vegna ó­á­nægju með laun og ekki síður starfs­anda innan eftir­litsins. Á hann að hafa svarað þessum á­hyggjum trúnaðar­manns á þá leið að hann hefði engar á­hyggjur af að missa starfs­mennina því að þeir myndu aldrei fá vinnu annars staðar.

Þegar um­mælin spurðust út féllu þau í grýttan jarð­veg meðal starfs­manna Vinnu­eftir­litsins.

Í kjöl­farið skrifuðu full­trúar starfs­manna hjá tveimur stéttar­fé­lögum, Sam­eyki og BHM, undir bréf þar sem þeir kröfðust þess að við­komandi viki frá störfum vegna sam­skiptanna. Bréfið var sent á Ás­mund Einar Daða­son fé­lags­mála­ráð­herra en að auki var það sent á Hönnu Sig­ríði for­stjóra, Attentus og stéttar­fé­lögin.

Heimildir Frétta­blaðsins herma að starfs­mönnunum sem skrifuðu bréfið hafi verið skipað að draga það til baka og hótað mál­sókn ef ekki yrði orðið við því. Starfs­mennirnir hafi þó staðið á sínu. Af­leiðingarnar urðu þær að eig­andinn fyrr­nefndi sagði sig frá verk­efninu og nýr ráð­gjafi frá Attentus tók við verk­efninu.