Jólin ganga senn í garð og óhætt að segja að jólaverslunin sé hafin af fullum krafti eftir „svartan föstudag“ og „net-mánudag“. Umfang jólaverslunar hleypur á milljörðum króna, en í hvað fara þessir milljarðar?

Glænýjar tölur Hagstofunnar um rekstur fyrirtækja varpa ljósi á svarið. Sundurliðuð velta, eða rekstrartekjur, í smásöluverslun í heild sinni sýna að langstærsti kostnaðarliður smásölu er vöru- og hráefniskostnaður, sem kemur lítið á óvart. Næststærsti liðurinn er launakostnaður en þar á eftir annar rekstrarkostnaður.

ráðdeild.PNG

Gögnin sýna þróunina allt aftur til 2002 en síðan þá hafa orðið tiltölulega litlar breytingar á skiptingunni en veltan hefur aukist um 53 prósent í samræmi við fólksfjölgun og aukinn kaupmátt. Á meðan rekstrarhagnaður hefur hlutfallslega staðið í stað hefur vægi launa- og rekstrarkostnaðar aukist á kostnað vöru- og hráefnisnotkunar.

Ef við skoðum svo rekstrarhagnað nánar má sjá að ein af hverjum 100 krónum sem heimilin vörðu í smásöluverslun 2018 var greidd út í arð.

Höfundur er hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.