Á þessum vettvangi var nýlega fjallað um hvernig skuldavandi heimila er ekki sjálfstætt vandamál í þeirri kreppu sem nú ríður yfir samanborið við þá síðustu, ólíkt því sem margir halda fram. Angi af þessu er sú útbreidda skoðun að verðtryggingin sé sjálfstætt vandamál.

Færa má rök fyrir því að verðtryggð neytendalán hafi ýmsa ókosti en burtséð frá skoðunum fólks er staðreyndin sú að verðtryggingin er á sífellt hraðara undanhaldi. Í fyrsta lagi hefur sú þróun átt sér stað hægt og bítandi síðastliðinn áratug með tilkomu óverðtryggðra íbúðalána. Í öðru lagi eru vextir sögulega lágir sem gerir óverðtryggð lán eftirsóknarverðari, einkum þar sem munurinn á óverðtryggðum og verðtryggðum vöxtum er fremur lítill og oft minni en sem nemur verðbólgu. Í þriðja lagi sýna nýjustu tölur um lántöku heimilanna að þau færa sig yfir í óverðtryggð lán, ekki hvað síst í apríl síðastliðnum en síðan þá hafa vextir lækkað enn meira.

graf.PNG

Þó að verðtryggingin hafi einnig sína kosti munu fáir sakna hennar. Þegar síðasta dansi hennar lýkur verður vonandi hægt að færa umræðu um íslensk efnahagsmál upp á næsta plan.

Höfundur er hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.